laugardagurinn 6. maí 2017

Pistill Kolbrúnar Sverrisdóttur 1. maí 2017

Góðir félagar, ég er þakklát fyrir að fá að taka þátt í baráttu samkomu okkar ísfirðinga. Hér í bænum hafa verið öflugir forystumenn og leiðandi í verkalýðsbaráttu á Íslandi. En draumsýn vestfirskrar alþýðu um jöfn kjör og mannsæmandi lágmarkslaun á ekki lengur hljómgrunn hjá stjórnmálastéttinni né verkalýðsrekendum á borð við þá sem reka Alþýðusamband Íslands ehf.

Sú óhugnanlega misskipting sem er orðin á Íslandi truflar mig, það svífur svipur fátæktar, græðgi og hroka yfir þjóðinni, almennastur er kannski ört vaxandi menntahroki, fólk telur sig vera hvorki meira né minna en MM, það er að segja meira mikilvægt en við hin sem erum einungis MM, sem er þá minna mikilvæg.

Þetta kemur berlega í ljós þegar samið er um kaup og kjör, þá er byrjað á að semja fyrir, takið eftir það er samið fyrir þá sem lökust hafa kjörin, það er að segja MM, það er minna mikilvægum. Þess er vandlega gætt að kjarabreytingar þeirra, við skulum ekki tala um kjarabætur í þessu sambandi, þess er vandlega gætt að kjarabreytingar þeirra valdi ekki vanda í efnahagslífi þjóðarinnar.

Þegar búið er að semja fyrir okkur sem ekki teljumst mikilvæg koma stórir MM fram á sviðið, það eru þessir meira mikilvægu. Þeir semja sjálfir um kaup og kjör og benda fullir vandlætingar á að þeirra laun verði að hækka meira en hins einfalda almúga. Þau telja upp gráður og próf sem skilji þau að fullu frá lýðnum. Í stað þess að benda á eigið ágæti snúast þau gegn okkur hinum sem stritum lífið án enda án nokkurs mikilvægis. Og talandi um það, nú eru eru fyrirtækin hætt að gefa stjórunum gullúr á stórum stundum. Nú fá allir alvöru menn ökklabönd ásamt auðvitað niðurfellingum í boði okkar almúgans.

Þegar verkalýðsrekendur semja fyrir hönd okkar fórnanlegu kemur enn eitt emmið, þá eru mættir MMM, það eru miklu mikilvægari menn. Kannski að ofurlaunamaðurinn Gylfi Arnbjörnsson sé táknmynd þeirrar stéttar.

Af því að ég talaði hér í upphafi um vestfirska verkalýðsforingja, þá er gaman að geta þess að fjölmiðillinn Stundin gerði úttekt á launum verkalýðsforingja um allt land. Þar kom fram að hann Finnbogi okkar hérna er lægst launaði formaður landsins. 
Nú er ég ekki að lýsa ánægju með að launin séu lægst hér, heldur hitt að hér séu foringjar í takt við sitt fólk í stað þess að vera i fílabeinsturni langt frá fólkinu, vonum þess og væntingum.

Við stöndum andspænis miklum vanda vegna óhugnanlegrar misskiptingar. Ungt fólk á orðið litla möguleika til að eignast þak yfir sig og sínar fjölskyldur. Allt er þetta vegna þeirrar fjármálastefnu sem ríkt hefur í landinu alla þessa öld. Fólk leigir fyrir okurfé og oftar en ekki hjá hrægammasjóðum sem ríki og bæjarfélög hafa fært íbúðir á silfurfati.

Reyndar hafa einhverjir grínistar á Alþingi lagt til að þetta verði leyst með því að foreldrar greiði börnunum arf fyrirfram. Þessir sérkennilegu húmoristar ætlast sjálfsagt til þess að ég selji alla fermetrana mína hér á Ísafirði til að börnin geti öll keypt sér íbúðir í Reykjavík, þar sem þau búa.

Um þetta grín þingheims segi ég bara eins og unglingarnir: Hversu steikt erum við orðin!

Kannski verður næst krafa um að við deyjum fyrr.

Ofaní kaupin á þessum hræðilega húsnæðismarkaði þar sem leiguverð er ekki í neinum takti við launaþróun í landinu sjáum við fram á óteljandi félagsleg vandamál komandi kynslóða sem hafa hrakist á milli leigusala og skólahverfa og hvergi náð að festa rætur. Menn sem hafa auðlindir hafsins í hendi sér geta á einu augnabliki svæft heilu þorpin og skilið eftir í auðn og tómi án þess að nokkur geti rönd við reist. Þá er ekki talað um forsendubrest og brugðist við, nema auðvitað með einhverju þinglegu gríni.

Venjulegt fólk hefur ekki lengur efni á að leita læknis ,heilbrigðiskerfið er í molum löggæslan er fjársvelt og það sem mér þykir áhugaverðast þá er lítill sem enginn áhugi hjá yfirvöldum að efla skattayfirvöld og taka föstum tökum þá mýmörgu sem stunda fyrirtækjarekstur og skila litlu sem engu til samfélagsins ,hversu marga spítala væri hægt að byggja ef allir myndu gjalda keisaranum sitt .

Það er ljóst að einhverstaðar höfum við hrakist af leið í baráttu fyrir bættu kjörum, misskipting og fátækt er orðin meiri í landinu en nokkurn grunar og ekki  þýðir ekki lengur að stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við þann vanda .

Að mínu mati verðum við að bregðast við strax, það er ekki hægt að hafa þennan séríslenska hugsunarhátt, þetta reddast þegar líf og heilsa fólks er að veði. Við þurfum að standa vörð um þá sem minna mega sín og það er okkar sem getum unnið og barist að verja þá .

Við þurfum að fá mannsæmandi laun fyrir þá lægst launuðu. Við þurfum jafnvel að láta þá betur stæðu sitja á hakanum á meðan við náum þeim sem lifa í örbirgð upp úr því hræðilega hlutskipti.

Við þurfum að spyrna við fótum og láta vita að það sé ekki boðlegt á meðan fólk sveltur og á hvergi höfði sínu að halla að ráðamenn þjóðarinnar já og verkalýðshreyfingar skammti sér rífleg yfirstéttarlaun á meðan hún kastar brauðmolum í samningum hinna vinnandi stétta.

Við eigum gjöfular auðlindir sem eðlilegt væri að við, eigendurnir hefðum hagnað af. Með gjaldtöku á nýtingarétti og uppstokkun á siðlausu og gjörspilltu fjármálakerfi þarf engin  að líða skort. Á meðan þessi mál eru í ólestri breytist ekkert á Íslandi.

Þið hafið öll heyrt fréttir um launahækkanir aðalsins, það er mælt í tugum prósenta, núna í dag, á sjálfum baráttudegi verkalýðsins hækka laun okkar almúgans um 4,5 prósent. Það væri kannski rétt að fyllast þakklæti og klappa hraustlega fyrir Alþýðusambandi Íslands ehf. ?

Talandi um spillingu er ekki úr vegi að geta þess að Lífeyrissjóðir landsins eru fremstir í flokki við að arðræna alþýðu þessa lands. Þar sitja saman verkalýðsrekendur og kollegar þeirra úr röðum atvinnurekenda. Þarna sameinast þeir við að gambla með lífeyri alþýðunnar sem ekkert hefur um þessa stóru sjóði sína að segja. Þeirra er að greiða, þegja og þiggja.

Það myndi gleðja mig mikið ef Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefði forgöngu um að þeir sem eiga lífeyrissjóðina, það er launafólk, myndi kjósa og velja stjórnendur þeirra. Ég veit ekki hvað atvinnurekendur myndu segja ef verkalýðurinn mætti kjósa meirihluta stjórnar í fyrirtækjunum þeirra.

Ég el mér þá von í brjósti eftir hallarbyltinguna í VR á dögunum að okkar tími sé kominn .

Við getum snúið þessari vondu þróun við ef við tökum slaginn saman.

Ef við náum að brjóta auðvaldið á bak aftur getum við búið hér, stétt með stétt.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.