fimmtudagurinn 29. maí 2014

Aðalfundur ályktar um atvinnumál

Staða atvinnumála í fjórðungnum var að sjálfsögðu til umræðu á aðalfundi félagsins. Voru fundarmenn ómyrkir í máli þegar staða sjávarbyggða var rædd. Flutningur veiðiheimilda, hreppaflutningar starfsfólks og nútíma vistarbönd voru orð sem féllu á fundinum. Skeytingarleysi gagnvart landverkafólki og minkandi atvinnuöryggi er grafalvarlegt mál og furðulegt að ekki skuli vera gripið til markvissra leiða til að koma í veg fyrir flutning aflaheimilda. Samfélagslegri ábyrgð er kastað fyrir róða og skammtíma gróðasjónarmið látin ráða.  Eftir nokkrar umræður um atvinnu- og kjaramál samþykkti fundurinn að senda frá sér eftirfarandi ályktun:

„Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn 27.maí 2014 lýsir stjórnvöld ábyrg fyrir þeim áföllum sem dunið hafa yfir störf í sjávarútvegi undanfarin misseri. Landverkafólk hefur ekkert til saka unnið sem réttlætir að vera sett í nútíma vistarbönd kvótaeiganda.

Kvótaflutningar í bolfiski og rækju höggva enn á ný svo nærri vestfirskum byggðum að ekki verður við unað. Nýjustu dæmin eru boðaðar breytingar á rækjuveiðum og flutningur veiðiheimilda frá Þingeyri. Fundurinn krefst þess að strax verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að Vestfirðingar geti betur nýtt gjöful fiskimið fjórðungsins með réttmætum hætti.

Fundurinn krefst áræðni og staðfestu í ákvarðanatöku svo tryggja megi að hjól atvinnulífs á Vestfjörðum stöðvist ekki. Komum í veg fyrir nýja öld lénsherra á Íslandi með tilheyrandi stéttaskiptingu. Ráðumst gegn atvinnu- og tekjumissi í Vestfirskum sjávarbyggðum með samstöðu okkar allra að vopni.“

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.