Framkvæmdastjórn SGS krefst þess að unnið verði að markvissri stefnumörkun um atvinnuöryggi verkafólks í fiskvinnslu," segir í ályktun framkvæmdastjórnar SGS, sem var að ljúka á Siglufirði, ,,þannig að geðþóttaákvarðanir kvótaeigenda geti ekki lagt lífsgrundvöll fjölda manns í rúst í einum vettvangi."


Ályktunin fer hér á eftir:

,,Enn eitt áfallið blasir við í atvinnumálum sjávarbyggða. Fiskvinnslan Kambur ehf., á Flateyri hættir starfsemi og selur allar aflaheimildir sínar burtu af svæðinu og skilur 120 manns eftir á vonarvöl atvinnuleysis. Verstu afleiðingarnar kvótakerfisins blasa enn á ný við fólki.

Kvótaeigendur sem velja að hætta starfsemi og selja frá sér kvótann halda eftir milljarðahagnaði fyrir sig. Ójöfnuður og óréttlæti kerfisins blasir við, þar sem þeir sem skópu verðmætin, verkafólk og sjómenn liggja óbætt hjá garði. Í því sambandi eru rök eiganda um háa vexti, hátt gengi krónunnar, hátt verð á aflaheimildum og leigukvóta sem megin ástæða fyrir því að ekki er lengur rekstargrundvöllur fyrir starfseminni, afar léttvæg.


Þegar atvinnulífi og hagsmunum fiskvinnslufólks er ógnað á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni, þá erum við minnt óþyrmilega á, að við höfum í reynd enga tryggingu fyrir því að íslenskir kvótaeigendur landi ekki öllum afla sínum annars staðar, jafnvel í útlöndum. Þeirra er valið að fara með kvótann þangað sem þeim þóknast. Flateyrarmálið vekur einnig spurningar um það hvernig komið er fyrir rekstargrundvelli annarra smærri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja hér á landi. Munu þau leggja upp laupana eitt af öðru, af sömu ástæðum og Kambur ehf. og eigendur selja frá sér kvótann með hagnaði. Eftir situr fiskvinnslufólkið bundið átthagafjötrum verðlausra eigna í byggðarlögum lítilla atvinnutækifæra.

Framkvæmdastjórn SGS krefst þess að unnið verði að markvissri stefnumörkun um atvinnuöryggi verkafólks í fiskvinnslu, þannig að geðþóttaákvarðanir kvótaeigenda geti ekki lagt lífsgrundvöll fjölda manns í rúst í einum vettvangi."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.