föstudagurinn 6. júlí 2007

Ályktun stjórnar Verk Vest

Ályktun stjórnar Verkalýðsfélags Vestfirðinga vegna niðurskurðar á veiðiheimildum Þorskkvóta fyrir komandi fiskveiðiár.

  

"Vegna niðurskurðar á Þorskkvóta á komandi fiskveiði ári skorar stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga á ráðamenn þjóðarinnar að taka til endurskoðunar regluna um kvótaálag á útflutning á ísuðum óunnum fiski.   Nú liggur fyrir að með boðuðum niðurskurði þorskafla mun landvinnsla á Vestfjörðum verða mjög illa úti miðað við óbreytt fyrirkomulag. Ráðamönnum þjóðarinnar ber skylda til að tryggja sem öflugasta landvinnslu sjávarafurða á Íslandi, en það verður ekki gert með því að hvetja útgerðir til að senda sjávarafla óunninn úr landi "

 

Greinargerð.

 

 

Á Vestfjörðum er samkvæmt nýjustu tölum frá Hagfræðideild Háskóla Íslands, hæsta hlutfall verkafólks við fiskvinnslu og tengd störf.  Með boðuðum niðurskurði á aflaheimildum í Þorski munu afleiðingarnar því hafa veruleg áhrif á störf og kjör þessa hóps.  Með því að breyta reglunni um útflutning á óunnum sjávarafurðum þannig að tryggt verði að sem mestum afla verði landað til vinnslu á Íslandi, þá munu afleiðingarnar ekki verða eins harkalegar og gera mætti ráð fyrir.

 

Með reglugerð nr.750/1999 var þessum reglum breytt á þann veg að aðeins sá hluti aflans sem ekki er endanlega vigtaður hérlendis er nú látinn sæta álagi. Þessi skerðingarregla hefur frá 1.sept. 2001 verið 10% af óvigtuðum afla en var í upphafi 25% af öllum afla. Gert er ráð fyrir að kvótaálagið hverfi alveg á næsta fiskveiðiári.

 

Fiskvinnsluna og innlenda fiskmarkaði munar tvímælalaust mest um þann fisk sem nú er fluttur út óunninn. Miðað við boðaðann aflasamdrátt í þorski á næsta fiskveiðiári skiptir það fiskvinnsluna mestu máli að eiga kost á að bjóða í þann fisk sem ella færi á erlenda fiskmarkaði.  

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.