Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir yfir þungum áhyggjum og sendir frá sér eftirfarandi ályktun vegna fyrirhugaðrar þjónustuskerðingar Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

"Ferðir ferjunnar Baldurs eru samfélaginu á sunnanverðum Vestfjörðum lífsnauðsynlegar. Samkeppnisstaða svæðisins verður stórlega skekkt gagnvart öðrum landshlutum ef dregið verður úr daglegum ferðum.  Má í því samhengi nefna, að fiskútflutningsfyrirtæki hafa á síðustu árum byggt upp verðmæt viðskiptasambönd sem nú er hætta á að fari forgörðum ef daglegar ferjusiglingar verða ekki tryggðar áfram.


Skerðing af þessu tagi leiðir til ótryggara atvinnuástands hjá íbúum byggðarlaga sem byggja nánast allt sitt á vinnslu og veiðum sjávarfangs, fyrir utan að hafa jafnvel bein áhrif á íbúaþróun með neikvæðum hætti.  Þá gegnir Ferjan Baldur einnig lykilhlutverki í samgöngum vegna reksturs framhaldsdeildar á Patreksfirði undir stjórn Framhaldsskóla Snæfellinga í Grundarfirði.


Á meðan ástand vegamála á svæðinu er svo dapurlegt sem raun ber vitni, er einfaldlega ekki hægt að bjóða fólkinu og atvinnulífinu á suðurfjörðunum upp á það að skerða þjónustu Baldurs. Hið skelfilega ástand veganna og fyrirhuguð skerðing á vetrarþjónustu gerir það að verkum að á þá flutningsleið er ekki hægt að treysta.

Í ljósi þessa skorar stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga eindregið á samgönguráðherra að fallið verði frá þessum áformum og íbúum suðursvæðis Vestfjarða  verði áfram tryggð þjónusta  með daglegum siglingum Baldurs yfir Breiðafjörð."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.