mánudagurinn 9. október 2006

Formannafundur SGS átelur hagstjórnarmistök

Úr ferð formannafundur SGS  2006
Úr ferð formannafundur SGS 2006
1 af 2

Formannafundur SGS sem haldinn var á Ísafirði 5. og 6. þ.m. samþykkti ályktun þar sem ríkisstjórnin er átalin fyrir hagstjórnarmistök sem stefna í hættu ávinningi kjarasamninga.  Á fundinum var kynnt félagsleg fræðsla á vegum MFA, launa- og kjarakönnun sem Gallup gerði fyrir sambandið og hagfræðngarnir Ólafur Darri Andrason hjá ASÍ og Guðmundur Ólafsson prófessor fluttu erindi og voru nokkuð á öndverðum meiði. Athyglisverðar niðurstöður komu fram í launa- og kjarakönnuninni. T.d. höfðu 75% þeirra sem fóru fram á launahækkun umfram kjarasamninga fengið hana, en aðeins rúml. 25% þeirra sem svöruðu höfðu farið fram á hækkun, þó aðeins 26% þeirra sem ekki reyndu það teldu sig hafa hæfileg laun. 30% þeirra sem ekki fóru fram á hækkun töldu það vonlaust, en 23% töldu sig ekki hafa stöðu til að biðja um hækkun. 
75% árangur þeirra sem reyndu gefur greinilega tilefni til að endurskoða þessa afstöðu.
60% sögðust hafa fundið fyrir vaxandi verðbólgu síðustu 6 mánuði. Könnunin leiddi í ljós að heildarlaun karla í fullu starfi voru 278 þús. en kvenna 187 þús.

Ályktun fundarins fer hér á eftir:

,,Fundur formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands haldinn 6. október 2006, lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Verðbólga er mikil, vextir í sögulegum hæðum, gengi íslensku krónunnar hefur lækkað mikið frá áramótum og hagspár gera ráð fyrir litlum eða engum hagvexti á næsta ári. Við þessar aðstæður rýrnar kaupmáttur margra og aukin greiðslubyrði af lánum leggst þungt á skuldsett heimili.


Þetta er dapurleg staða fyrir íslenskt launafólk í lok eins mesta góðæris íslandssögunnar. Alvarleg mistök í hagstjórninni á liðnum árum hafa leitt til þess að þeir ávinningar sem yfirstandandi kjarasamningar áttu að tryggja launafólki hafa að stórum hluta glatast. Það er einnig dapurleg staðreynd að hagstjórnarmistökin hafa leitt til þess að atvinnulífið stendur ekki nægilega traustum fótum í lok hagsveiflunnar.


Formannafundurinn krefst þess að stjórnvöld geri það að forgagnsverkefni að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi sem er forsenda þess, að hægt sé að byggja upp hagvöxt til lengri tíma, auka varanlegan kaupmátt launa og byggja upp góð störf til framtíðar."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.