Fundur stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn 17. september 2008 tekur undir áskorun 53. Fjórðungsþings Vestfirðinga um auknar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í aflaheimildum í þorski. En þegar kemur fram á núverandi fiskveiðiár þá munu afleiðingar skerðingarinnar leggjast af fullum þunga á veiðar og vinnslu sjávarafurða sem gætu haft varanleg áhrif á atvinnumöguleika íbúa sveitarfélöga á Vestfjörðum.

 

Fundurinn tekur einnig undir stefnumótun 53. Fjórðungsþings í samgöngumálum, sérstaklega um nauðsyn þess að með tengingu norðan- og sunnanverðra Vestfjarða muni Ísafjarðarbær standa undir nafni sem byggðarkjarni Vestfjarða. Fyrir íbúa, stofnanir og fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum er brýn nauðsyn að leiðin Ísafjörður - Reykjavík í gegnum Barðastrandasýslu verði heilsársvegur. Þessi vegur yrði að mestu láglendisvegur sem jafnframt tryggði öruggari hringtengingu sveitarfélaga á Vestfjörðum.

 

Þá fagnar fundurinn hugmyndum starfshóps viðskiptaráðherra um niðurgreiðslu á flutningskostnaði framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni. Sá flutningskostnaður  sem framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni þurfa að búa við skekkir mjög samkeppnishæfni þeirra við framleiðslufyrirtæki á suðvesturhorninu. Verði hugmyndir starfshópsins að veruleika styðja þær við frekari atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni sem og að treysta atvinnuöryggi íbúa landsbyggðarinnar.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.