Á fundinum sköpuðust góðar umræður um stöðu þeirra viðræðna sem hafa átt sér stað milli samningamann launþega við samtök atvinnulífsins um framlengingu kjarasamninga á almennu markaði. Ljóst var á fundarmönnum að engin ástæða væri til þess að gefa meira eftir en orðið væri í þeim efnum. Launþegar hefðu þegar tekið á sig kjaraskerðingu í formi kaupmáttar skerðingar svo ekki væri talað um hátt vaxta- og verðbólgustig. Ekki væri rétt við núverandi aðstæður að samþykkja frestun samninga um óákveðinn tíma, en ekkert í spilum vinnuveitanda bendir til þess að þeir hafi úr meiru að moða þegar kemur fram á haustið. Í ljósi þess væri nauðsynlegt að hvetja samningafólk okkar til að standa vörð um gerðan kjarasamning og hvika ekki frá okkar kröfum. Í framhaldi af þessum umræðum samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun.
"Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga hvetur til víðtæks samráðs og samstöðu meðal launþega og forustumanna samtaka þeirra. Tökum ekki þátt í pólitísku valdapoti þar sem hagsmunir einstaklingsins verða fótum troðnir í þeim glundroða og óeiningu sem nú ríkir á hinu pólitíska skákborði.
Samningsaðilar launþega eru hvattir til að hlusta á áherslur hins almenna félagsmanns og hafa þær að leiðarljósi. Verum þess minnug að vilji félagsmanna eru lýðræðisleg vinnubrögð og gagnvirkar upplýsingar, ekki miðstýrð ákvarðanataka fárra einstaklinga án samráðs við grasrótina.
Höfum samstöðu og einingu að leiðarljósi. Látum hræðsluáróður vinnuveitanda ekki villa okkur sýn. Ákvörðun um frestun kjarasamninga verður eingöngu tekin af félagsmönnunum sjálfum en ekki fámennum hópi. Það er hin lýðræðislega aðferð, forræðishyggja og miðstýring verður að víkja.
Stöndum vörð um réttindi félagsmanna ásamt því að verja gildandi kjarasamninga. Launþegar hafa þegar lagt sitt lóð á vogaskálarnar til þess að svo megi verða."
Þá kynnti formaður kjörnefndar tillögur um fólk í trúnaðarstöður hjá félaginu fyrir kjörtímabilið 2009 - 2011. Ekki komu fram aðrar tillögur á fundinum um einstaklinga í trúnaðarstöður hjá félaginu og var listinn því samþykktur í heild sinni. Samkvæmt lögum félagsins skal stjórn félagsins auglýsa hverjir skipi listann. Frá því að listi trúnaðarmannaráðs er auglýstur hafa félagsmenn 14 sólahringa frest til að bera fram aðra lista, eða tillögur um einstök stjórnarsæti sem kjósa skal um.
Á fundinn mætti einnig Þorsteinn Örn Gestsson og hélt kynningu á heimilisbókhaldsforritinu Bóthildi. Félagið hafði áður staðið fyrir námskeiðinu Fjármálalæsi - fjármál heimilanna í samstarfi við Félagsmálaskólann og Fræðslumiðstöðina þar sem forritið var einnig kynnt. Var ekki að heyra annað á undirtektum fundarmanna en þetta væri einmitt það sem þyrfti að koma að hjá sem flestum að halda betur utan um fjármál heimilisins. Ekki skemmir að forritið er bæði aðgengilegt og með notendavænt viðmót og að sjálfsögðu á íslensku.