þriðjudagurinn 8. maí 2012

Gullkálfsdansinn hjá stjórn Framtakssjóðs

Stjórn Framtakssjóðs. Mynd: framtakssjóður.is
Stjórn Framtakssjóðs. Mynd: framtakssjóður.is

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga stóð fyrir almennu félagsfundi þar sem fulltrúar á ársfund Lífeyrissjóðs Vestfirðinga voru kjörnir. Nokkuð heitar umræður sköpuðust um stöðu lífeyrissjóðanna í landinu og sérstaklega Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. Í því samhengi var rædd aðkoma Lífeyrissjóðsins að Framtakssjóði Íslands og voru fundarmenn á þeirri skoðun að með breytingum á stjórn og óheyrilegri hækkun launa stjórnarmanna hefði siðferði sjóðsins dalað umtalsvert. Samþykkti fundurinn einróma að senda frá sér eftirfarandi ályktun.

"Félagsfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn þriðjudaginn 8. maí 2012, krefst þess að stjórn Framtakssjóðs Íslands sjái sóma sinn í því að draga til baka óheyrilegar hækkanir launa til stjórnarmanna sjóðsins. Þessar launahækkanir eru úr öllum takti við þær launahækkanir sem launþegar hafa fengið í gegnum almenna kjarasamninga. Með þessari rakalausu óhæfu er stjórn sjóðsins að hefja sama dansinn kringum gullkálfinn og kom landinu á kaldan klaka árið 2008."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.