fimmtudagurinn 12. janúar 2012

Kjarasamningum verði ekki sagt upp !

Mikill hiti var í fundarmönnum út af skattlagningu sérignarsparnaðar
Mikill hiti var í fundarmönnum út af skattlagningu sérignarsparnaðar
1 af 2

Stjórn og trúnaðarráð Verk Vest kom saman til fundar í gær og var vel mætt. Helstu dagskrárefni fundarins voru endurskoðun kjarasamninga ásamt skattlagningu viðbótarlífeyrissparnaðar. All heitar umræður urðu um þann farveg sem samningamál stéttarfélaga inna ASÍ eru komin í. Var það mál fundarmanna að sú breyting sem orðið hefur með tilkomu forsendunefndar ASÍ, sem fest hefur verið í sessi, að ákvörðunartaka um framhald viðræðna sé á höndum örfárra einstaklinga en ekki samninganefnda aðildarfélaganna. Það verði síðan verkefni samninganefndanna að taka við keflinu ef forsendunefnd metur stöðuna þannig að segja verði samningum upp. Slíkt fyrirkomulag veiki í raun stöðu samninganefnda sem ekki hafi beina aðkomu að ákvörðunar tökunni. Þrátt fyrir þá stöðu sem komin er upp samþykkti fundurinn að senda eftirfarandi ályktun um endurskoðun kjarasamninganna.

"Fundur stjórnar og trúnaðarráðs Verk Vest haldinn 11.janúar 2012 hvetur stéttarfélög innan ASÍ til samstöðu til varnar launaþegum á Íslandi.  Vinnuveitendur hafa staðið við sitt, því er nauðsynlegt að tryggja að þær hækkanir sem samið hefur verið um verði að veruleika 1.febrúar nk.  Fundurinn telur ekki rétt að kjarasamningum verði sagt upp og setja þannig frið á vinnumarkaði í uppnám, þrátt fyrir að ríkisstjórnin standi ekki við gefin loforð.  Hætta er á að slíkt stefni kjarasamningum og málefnum launþega í algjöra óvissu.  Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur stjórnvalda komi til samningsslita og ófriðar á vinnumarkaði í kjölfar endurskoðunar forsenduákvæða kjarasamninga.  Verkefni forustumanna samninganefnda innan ASÍ og atvinnurekenda er að krefja ríkisstjórnina um efndir þeirra loforða sem þar voru gefin þann 5. maí 2011."

Þá sköpuðust einnig snarpar umræður um þá ákvörðun Alþingismanna að samþykkja fjárlögin þar sem gert var ráð fyrir skattlagningu á viðbótarlífeyrissparnaði launafólks. Var í því sambandi bent á að þar væri ríkisstjórnin að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, þar sem skatttekjur ríkissjóðs myndu eingöngu aukast um 1,4 milljarða á gildistíma laganna. Þetta væri aðeins 0,3% af áætluðum heildarskattekjum ársins 2012. Einnig voru mjög háværar raddir innan trúnaðarráðs um að þessi gjörningur stæðist vart lög. En um tvísköttun er að ræða velji launþeginn að halda áfram að leggja 4% í viðbótarlífeyrissparnað. Þar sem iðgjaldið yrði skattlagt við innborgun og síðan aftur þegar sparnaðurinn væri tekinn út. Varð það mál fundarmann að rétt væri að lát reyna á slíkt fyrir dómstólum og mun félagið kanna hvort sú leið verði fær, og töldu sumir þessa skattlagningu nægar ástæður til að segja samningum upp!

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.