Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir megnri óánægju sinni með þá afstöðu félagsmálaráðherra Árna Magnússonar að ætla ekki að leggja til að Ísland fullgildi samþykkt Alþjóðavinnumálastofununarinnar (ILO) nr. 158. Þetta samsvarar yfirlýsingu um að Íslendingar skuli áfram búa við minna öryggi og sanngirni en aðrar þjóðir, sem þegar hafa fullgilt samþykktina eða búa við sambærileg eða betri réttindi í vinnulöggjöf.
Íslendingar geta ekki til lengdar búið við það óréttlæti að vinnuveitendur geti rekið menn úr vinnu, jafnvel eftir áralanga þjónustu, án þess að færa fyrir því nokkur rök. Mótbára vinnuveitenda um hindrun í sveigjanleika eru falsrök, drottnunarárátta er raunsannari lýsing.
Stjórnin skorar á alþingismenn að ganga fram fyrir skjöldu og flytja nú þegar frumvarp á Alþingi um fullgildingu á samþykkt ILO nr. 158.