Frá stjórnarfundi í Gamla skóla á Bíldudal.
Frá stjórnarfundi í Gamla skóla á Bíldudal.

"Stjórnarfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn á Bíldudal 16. maí 2009 tekur undir ályktun málþings "Sókn í eflingu atvinnulífs á suðursvæði Vestfjarða" frá 5. maí sl.  Engin sanngirni felst í því að þau landssvæði sem tóku á sig mikinn skell vegna ofþenslu síðustu ára þurfi að taka á sig enn frekari skell vegna þeirrar kreppu sem nú dynur á heimilum landsmanna. Fundurinn beinir þeim tilmælum til Alþingis að horfa sérstaklega til þeirra sóknarfæra sem felast í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni bæði í sjávarútvegi og landbúnaði.

 

Fundurinn krefst þess að stjórnvöld geri stórátak í jöfnun raforku- og flutningskostnaðar sem og standa við fyrri hugmyndir um flutning opinberra starfa til landsbyggðarinnar.  Þá verði átak í samgöngumálum Vestfirðinga sett í algjöran forgang, þannig að heilsárstenging suður- og norðursvæðis verði að veruleika sem fyrst.  Í þeim málum eru vestfirskir vegir mörgum áratugum á eftir í uppbyggingu og þróun. Sú tenging mun skjóta styrkari stoðum og efla samvinnu og samstarf í atvinnumálum á norður- og suðursvæði Vestfjarða." 

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.