Síðasti stjórnarfundur ársins hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga fór fram í gær. Formaður fór yfir stöðu mála í kjarasamningunum, allheitar umræður voru um framkomnar kröfugerðir sambanda sem félagið er aðili. Var það samdóma álit stjórnarmanna að ekki væri ástæða til að kvika frá framsettum kröfum.

Þá var einnig rætt um málefni aldraðra og þá stöðu sem virðist vera í uppsiglingu hjá þessum þjóðfélagshóp í bæjarfélaginu.
Í framhaldi af umræðunni var samþykkt að leggja fram stjórnarályktun vegna þessa sem er svohljóðandi:

"Allmikil umræða hefur verið á Vestfjörðum um fjölgun starfa og þá þörf sem er fyrir aukna þjónustu fyrir aldraða í fjórðungnum. Það skýtur því skökku við að í þessari umræðu skuli vera tekin sú ákvörðun hjá bæjarstjórn stærsta bæjarfélagsins að loka þjónustudeild aldraðra á Ísafirði. Með þessari ákvörðun er ekki einungis verið að skerða þjónustu til eldri borgara í Ísafjarðarbæ heldur líka fækka störfum. Þessi framkoma við aldraða er til mikilla vansa og ekki til þess fallin að auka hróður okkar í umræðunni.


Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga telur að þrátt fyrir skeytingarleysi heilbrigðisyfirvalda, þegar kemur að auknu fjarmagni til byggingar hjúkrunarrýma fyrir aldraðra á landsbyggðinni, hefðu bæjaryfirvöld á Ísafirði miklu fremur átt að efla þessa þjónustu. Það væri hægt með því að nýta lagaheimildir og ráðast í byggingu hjúkrunarrýmis, jafnvel með þátttöku hagsmuna- og félagasamtaka. Ekki einungis myndi það stuðla fjölgun starfa við ummönunn í sveitarfélaginu, heldur einnig skapa fyrirtækjum í byggingariðnaði á svæðinu aukin tækifæri".

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.