Þær eru ófáar krónurnar sem svarta hagkerfið á Íslandi veltir !
Þær eru ófáar krónurnar sem svarta hagkerfið á Íslandi veltir !

Verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins hafa ásamt skattayfirvöldum unnið að því undanfarin misseri að tryggja að svört atvinnustarfsemi yrði tekin fastari tökum. Eins og staðan er í dag skortir þessa aðila verkfæri svo hægt verði að taka á vandanum með markvissum hætti. Á meðan slík verkfæri skortir blómstrar svört atvinnustarfsemi sem aldrei fyrr, slíkt skekkir samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem fara að settum reglum á vinnumarkaði. Stjórn Verk Vest hefur bent á að slíkt ástand sé með öllu ólíðandi enda bitnar slíkt einnig á félagslegum kjörum starfsmanna. Í kjölfar umræðu um svarta atvinnu á stjórnarfundi félagsins var eftirfarandi ályktun samþykkt. 

"Ferðaþjónustan er talin vonarneisti í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Margt gott hefur verið gert til að efla ferðamennsku á landinu og hefur þessum atvinnuvegi vaxið mjög fiskur um hrygg undanfarin ár. Ferðamannaiðnaðurinn er farinn að velta miljörðum og skilar umtalsverðum tekjum inn í íslenskt samfélag. Því miður hefur ekki öllum virðisauka af þessari miklu aukningu í íslenskri ferðaþjónustu verið skilað í ríkiskassan. Skýrasta sönnun þess eru niðurstöður átaks sem verkalýðshreyfingin í samstarfi við atvinnulífið og skattin hrundu af stað árið 2010. Rétt er að benda á að þar kom fram að ástandið væri einna verst á Vestfjörðum. Hér blómstraði svört atvinnustarfsemi sem aldrei fyrr.

Ekki eingöngu skerðir slíkt háttarlag samkeppnismöguleika þeirra fyrirtækja sem vilja viðhafa eðlilega viðskiptahætti og fara að lögum og reglum, heldur virðast mörg ferðaþjónustufyrirtæki líta á það sem eðlilegan þátt í rekstrinum að skjóta undan skatti. Slíkt verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Á árinu 2011 er talið að fyrirtæki sem ástunda svata atvinnustarfsemi á Íslandi hafi skotið 14 miljörðum, 14.000 miljónum króna undan skatti. Slík upphæð dygði okkur Vestfirðingum til að byggja Dýrafjarðargöng,lagfæra veginn um Dynjandisheiði og brúa Þorskafjörðinn, samt yrði afgangur sem mætti nýta til að endurnýja úr sér gengin tækjabúnað á Landspítalanum. Stjórn verkalýðsfélags Vestfirðinga hvetur nýskipaðann ráðherra efnahags- og fjármála til að beita sér fyrir landsátaki gegn svartri atvinnustarfsemi. Löggjafinn verður að útvega betri verkfæri til að taka á þeim fyrirtækjum sem verða uppvís að svartri atvinnustarfsemi. Svört atvinnustarsemi er orðin að nýjustu þjóðaríþróttinni, vandinn er bara að í þeirri íþrótt „TAPA ALLIR“ og við sjálf mest."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.