Sjómannafélag Ísfirðinga

Sjómannafélag Ísfirðinga var stofnað 5. febrúar 1916. Fyrsti formaður þess var Eiríkur Einarsson, en aðrir í stjórn voru Sigurgeir Sigurðsson, Jón Björn Elíasson og Jónas Sveinsson. Á stofnfundinum voru skráðir í félagið 75 meðlimir, samkvæmt fundargerðabók, en fram að næsta fundi bættust við 34, þannig að stofnfélagar teljast 109. Félagar hafa lengst af verið hátt á annað hundrað, en mest um þjú hundruð á árum eftir síðari heimsstyrjöld.

Hávarður Ísfirðingur, síðar Skutull, smíðaður
Hávarður Ísfirðingur, síðar Skutull, smíðaður

Í fyrstu hét félagið Hásetafélag Ísfirðinga, en nafninu var breytt á fundi 23. október 1921, til samræmis við sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði. Félagið sótti um inngöngu í Alþýðusamband Íslands árið 1921, en virðist ekki hafa verið samþykkt fyrr en 18. febrúar 1924. Sjómannafélagið var meðal stofnenda Alþýðusambands Vestfjarða (Verklýðssambands Vesturlands) árið 1927 og félagið gekk í Sjómannasamband Íslands eftir 1970.

Sjómannafélag Ísfirðinga hefur frá stofnun þess 1916 unnið að bættum hag sjómannastéttarinnar á ýmsum sviðum, bæði með samningagerð, en einnig afskiptum af öryggismálum og öðrum þeim málum sem snúa að bættum hag og lífskjörum félagsmanna. Má þar nefna sjómannafræðslu, sundlaugarbyggingu og lífeyrismál.

Ísing á togara. Ísingin var einhver mesta vá sem steðjaði að sjómönnum á síðutogurunum. Í frosti og ágjöf hlóðst ísinn á vanta og stög, sem mikið var af á þessum skipum. Þá varð að berja ísinn af, oft við ótrúlega erfiðar aðstæður. Annars gat skipið orðið yfirþungt og oltið.
Ísing á togara. Ísingin var einhver mesta vá sem steðjaði að sjómönnum á síðutogurunum. Í frosti og ágjöf hlóðst ísinn á vanta og stög, sem mikið var af á þessum skipum. Þá varð að berja ísinn af, oft við ótrúlega erfiðar aðstæður. Annars gat skipið orðið yfirþungt og oltið.

Félagið náði samningum við útgerðarmenn á Ísafirði á fyrst starfsári sínu 1916, og var það í fyrsta sinn sem atvinnurekendur viðurkenndu samningsrétt verkalýðsfélags í bænum. Næstu ár versnuðu hinsvegar aðstæður útgerðarinnar og erfitt reyndist að koma á samningum. Fyrsta verkfall félagsins vorið 1920 breytti þar engu um, hásetafélagið aflýsti verkfallinu án þess að ná fram sínum kröfum. Sjómannafélag Ísfirðinga náði fram ýmsum baráttumálum sjómanna eftir að Samvinnufélag Ísfirðinga var stofnað, svo sem kauptryggingu árið 1936 og það átti verulegan þátt í því að koma á heildarsamningum um kjör sjómanna á Vestfjörðum árið 1952. Voru þeir samningar í ýmsu betri en aðrir samningar sjómanna á landinu.

Ísafjörður kringum 1930.
Ísafjörður kringum 1930.

Sjómannafélagið átti ríkan þátt í stofnun Samvinnufélags Ísfirðinga árið 1927, undir forystu Eiríks Einarssonar sem hafði eftirlit með byggingu sjö báta félagsins í Noregi og Svíþjóð. „Birnirnir" komu til heimahafnar árin 1928 og 1929. Sjómenn ásamt verkafólki stóðu að byggingu Alþýðuhússins á Ísafirði 1934-1935, og var Eiríkur Finnbogason annar helsti forsvarsmaður húsbyggingarinnar með Hannibal Valdimarssyni formanni verkalýðsfélagsins Baldurs. Styrktarsjóður Sjómannafélagsins er annar eigandi hússins.

Júlíus Geirmundsson, fyrsti skuttogari Ísfirðinga, smíðaður í Noregi 1972, 407 brl.
Júlíus Geirmundsson, fyrsti skuttogari Ísfirðinga, smíðaður í Noregi 1972, 407 brl.

Sjómannafélagið ásamt öðrum félögum sjómanna og útgerðarmanna á Ísafirði stóð að Sjómannadagsráði frá árinu 1938 - 1993, sem haldið hefur hátíðlegan Sjómannadaginn. Þá kaus félagið fulltrúa í 1. maí nefnd stéttarfélaganna á Ísafirði og í Jólatrésnefnd um áratugaskeið.

Formenn félagsins hafa verið:

 • Eiríkur Einarsson 1916, 1918-1919, 1924-1925, 1927
 • Pálmi Kristjánsson 1917
 • Ólafur Ásgeirsson 1920-1921
 • Sigurvin Hansson 1921-1923
 • Sigurður Ingvarsson 1925-1926
 • Ingólfur Jónsson 1927-1930
 • Pjetur Sigurðsson 1930-1931
 • Eiríkur Finnbogason 1931-1936 (lést 24.11.1936)
 • Bjarni Hansson 1936
 • Árni Magnússon 1937-1942
 • Kristján Kristjánsson (lóðs) 1942-1943
 • Ólafur Þórðarson 1943-1944
 • Jón H. Guðmundsson 1944-1959, 1962-1963
 • Sigurður Kristjánsson 1959-1962
 • Guðjón Jóhannesson 1963-1969
 • Bjarni L. Gestsson 1969-1970
 • Guðmundur Gíslason 1970-1974 (lést 29.11.1974)
 • Ágúst Ingi Ágústsson 1975-1977
 • Jón Grímsson 1977-1978
 • Gunnar Þórðarson 1979-1981
 • Sigurður Ólafsson 1982-1999
 • Sævar Gestsson 2000-2005

Félagar í Sjómannafélag Ísfirðinga samþykktu í allsherjaratkvæðagreiðslu sem lauk 15. janúar 2005 að sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. 54 félagsmenn af 107 tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og samþykktu 45 sameininguna. Sjómannafélagið starfar áfram sem deild í hinu sameinaða félagi. Formaður deildarinnar árið 2005 er Sævar Gestsson.

Prentaðar heimildir um Sjómannafélag Ísfirðinga:

 • Sigurður R. Ólafsson, Sjómannafélag Ísfirðinga. Stjórn og nefndir 5.febrúar 1916 - 26. desember 1999. (Fjölrit 1999).
 • „Sjómannafélag Ísfirðinga." Vinnan, afmælishefti 1966. Útgefandi Alþýðusamband Íslands. Bls. 50.
 • Sigurður Pétursson. „Bolsarnir byltast fram. Uppgangur verkalýðshreyfingar og valdataka Alþýðuflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðar." Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1985. 28. ár. Ísafirði 1985, bls. 39-76.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.