Sveinafélag byggingamanna, Ísafirði

Ísafjörður
Ísafjörður

Sveinafélag byggingarmanna, Ísafirði var stofnað þann 16. október árið 1980. Nefndist félagið í fyrstu Sveinafélag byggingariðnaðarmanna á Ísafirði. Á stofnfundi mættu 23 húsasmiðir, húsgagnasmiðir, múrarar, píparar og málarar. Pétur Sigurðsson forseti ASV hafði forgöngu um stofnun félagsins og hafði framsögu á fundinum. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Gunnar Pétur Ólason húsasmiður.

Sveinafélagið gerðist þegar meðlimur í Alþýðusambandi Vestfjarða, en gekk einnig í Samband byggingarmanna, og þar með Alþýðusamband Íslands. Samband byggingamanna myndaði síðar ásamt fleiri iðnfélögum Samiðn, landssamband fagfélaga í iðnaði.

Byggingamenn að störfum 2002
Byggingamenn að störfum 2002

Sveinafélag byggingamanna, Ísafirði, hefur sinnt kjara- og samningamálum félagsmanna. Það gerðist aðili að endurmenntunarsjóði bygginngar- og tréiðnaðarmanna árið 1991 og hefur staðið fyrir fjölmörgum námskeiðum fyrir byggingamenn. Félagið keypti árið 1991 sumarhús í orlofsbyggð verkalýðsfélaganna í Vatnsfirði.

Árið 2002 var samþykkt á félagsfundi að Sveinafélagið gengi til samstarfs við átta önnur verkalýðsfélög á Vestfjörðum um stofnun sameiginlegs félags. Byggingamenn mynda sérstaka deild í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Formenn félagsins frá 1980 voru Gunnar P. Ólason frá stofnun þess til 1987 og Guðjón K. Harðarson frá 1987 til 2002.

Heimildir:

 

  • Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum, deild 27.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.