Verkalýðsfélagið Baldur

Verkalýðsfélagið Baldur var stofnað af verkamönnum á Ísafirði 1. apríl árið 1916. Í fyrstu nefndist félagið Verkamannafélag Ísfirðinga, en nafninu var breytt í ársbyrjun 1917. Sama ár gekk félagið í Alþýðusamband Íslands, sem stofnað var 12. maí 1916, og var í senn bæði verkalýðssamband og stjórnmálaflokkur sem nefndist Alþýðuflokkurinn. Sú skipan hélst allt til ársins 1940. Fyrstu stjórn verkamannafélagsins skipuðu Sigurður H. Þorsteinsson, formaður, Kristján Dýrfjörð Kristjánsson, varaformaður, Jón G. Hallgrímsson ritari og Magnús Jónsson gjaldkeri.

Félagið samþykkti þegar í byrjun aukalög, sem voru kauptaxtar félagsmanna, og gerði samþykktir um vinnutíma, sem þá var 12 tímar á dag. Ekki treystu félagar Baldurs sér til þess að láta brjóta á kröfum sínum og valt á ýmsu hvort atvinnurekendur virtu félagið viðlits fyrstu árin. Félagar í Baldri vildu greinilega fara varlega af stað og efla félagsskapinn áður en lengra væri haldið, ef til vill minnugir þess hvernig fór fyrir fyrsta verkalýðsfélaginu sem stofnað var á Ísafirði tíu árum áður.

Fyrsta verkalýðsfélagið 1906

Vorið 1906 var fyrsta verkalýðsfélagið stofnað á Ísafirði. Á þeim tíma var mikill uppgangur í bænum, vélbátum fjölgaði ört og mikil atvinna var hjá stóru verslununum sem jafnframt stóðu að útgerð og saltfiskverkun. Á stuttum tíma söfnuðust meir en 400 nöfn á félagalista Verkamannafélags Ísfirðinga, bæði sjómenn og landverkafólk, karlar jafnt og konur. Formaður félagsins var Júlíus Símonarson, titlaður húsmaður. Með honum í stjórn voru formennirnir Sigurgeir Bjarnason og Tómas Gunnarsson og Eyjólfur Bjarnason bókbindari. Félagið setti fram kröfur um hækkun dagvinnulauna og styttingu vinnudagsins úr tólf tímum í tíu. Voru kröfur félagsins í takt við samþykktir Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík, sem þá var nýstofnað. Ekki vildu atvinnurekendur ganga að þessum kröfum og var þá boðað verkfall á Ísafirði. Stóð verkfallið hjá stærstu atvinnurekendum í nokkra daga, en þá tók samstaðan að bregðast og fólk að sækja í vinnu á ný fyrir sömu laun og kjör og áður. Þar með stóð félagið eftir máttlaust og lognaðist útaf í kjölfarið.

Einn maður var þó ódrepandi málsvari félagsskapar verkafólks á þessum árum. Það var Ólafur Ólafsson verkamaður. Hann skrifaði greinar í blöð á Ísafirði og hélt opinbera fyrirlestra um kjör alþýðu og verkalýðsfélög, sem voru prentaðir. Og hann talaði enga tæpitungu þegar hann skrifaði: „Það er ofurmagn þrælsóttans fyrir auðvaldinu, sem vinnur á móti og niðurdrepur alt sjálfstæði yðar." (Valurinn 14. mars 1907).

Samhjálp í fyrri heimsstyrjöld

Ísafjörður um 1920
Ísafjörður um 1920

Verkalýðsfélagið Baldur var stofnað á árum fyrri heimsstyrjaldar þegar verð á nauðsynjum, einkum kolum, olíu og öðrum innfluttum vörum hækkaði upp úr öllu valdi og kaupmáttur vinnulauna hrapaði. Auk þess var tímabundið atvinnuleysi fastur liður hjá íbúum kaupstaðarins á hverju ári. Félagar Baldurs beindu því kröftum sínum meira að sameiginlegum innkaupum á nauðsynjum, félagsverslun og garðrækt. Varð það mörgum að gagni á erfiðum tímum. Eftir frostaveturinn mikla 1918 tóku félagar í Baldri sig saman um mótekju á Seljalandsdal. Nýttist það félagsmönnum vel næstu ár í eldiviðarskorti og erfiðu árferði. Árið 1920 gerðist Baldur stofnaðili að Kaupfélagi Ísfirðinga sem varð með tímanum stærsta verslunin í bænum.

Ný forysta - nýjar áherslur

Það var ekki fyrr en vorið 1921 sem félagsmenn í Baldri létu til skarar skríða í launabaráttunni. Tókst þeim að ná fram munnlegum samningi við atvinnurekendur um launahækkun, 1,20 krónur á tímann, en um eftirvinnu og næturvinnu náðist ekki niðurstaða. Samkomulagið stóð ekki nema í einn mánuð og í maí kom fram á almennum verkalýðsfundi að sautján verkamönnum var sagt upp hjá „Hinum Sameinuðu" eins og stærsta fyrirtæki bæjarins var kallað. Í kjölfarið tóku að berast úrsagnir úr Baldri, sem var óvenjulegt. Atvinnurekendur munu hafa hótað verkamönnum brottrekstri ef þeir segðu sig ekki úr félaginu og margir gátu ekki annað en hlýtt því, þó það væri þeim þvert um geð. Atvinnuna urðu menn að hafa. Var þá hætt að lesa upp úrsagnir á fundum Baldurs. Sýndi þetta að atvinnurekendur voru farnir að óttast áhrif verkalýðsfélagsins. Hörðustu kjaraátök félagsins urðu árið 1926 þegar verkafólki tókst að verjast launalækkunarkröfum atvinnurekenda með verkfalli. Á þessum tíma vildi það Baldursfélögum til að þeir höfðu fengið í sínar raðir nýjan forystumann sem var óháður atvinnurekendavaldinu og vílaði ekki fyrir sér að standa í fremstu víglínu í baráttu verkafólks fyrir mannsæmandi lífskjörum og réttlátara þjóðfélagi.

Finnur Jónsson formaður Baldurs 1921-1932, framkvæmdastjóri Samvinnufélags Ísfirðinga, alþingismaður og ráðherra.
Finnur Jónsson formaður Baldurs 1921-1932, framkvæmdastjóri Samvinnufélags Ísfirðinga, alþingismaður og ráðherra.

Haustið 1920 var Finnur Jónsson gerður að póstmeistara á Ísafirði og gekk hann þegar til liðs við verkamenn í Baldri. Var hann kosinn formaður í janúar 1921, þrátt fyrir að hann bæðist undan slíkum trúnaði. Finnur stýrði félaginu næstu ellefu árin. Undir forystu Finns Jónssonar varð Verkalýðsfélagið Baldur að stórveldi í íslenskri verkalýðssögu.

Hannibal Valdimarsson formaður Baldurs 1932-1939, alþingismaður, ráðherra og forseti Alþýðusambands Íslands.
Hannibal Valdimarsson formaður Baldurs 1932-1939, alþingismaður, ráðherra og forseti Alþýðusambands Íslands.

Forystusveit Baldurs varð hryggstykkið í meirihluta jafnaðarmanna í Bæjarstjórn Ísafjarðar sem stóð í aldarfjórðung frá árinu 1921. Undir forystu Finns Jónsson, Vilmundar Jónssonar, Haraldar Guðmundssonar, Hannibals Valdimarssonar, Guðmundar G. Hagalín og samherja þeirra varð Ísafjörður undir merkjum Alþýðuflokksins fyrsti rauði bærinn á Íslandi.

Verkalýðsfélagið Baldur stóð ásamt bæjaryfirvöldum og fleirum að uppbyggingu atvinnufyrirtækja eins og Samvinnufélags Ísfirðinga sem lét smíða sjö báta, Birnina, á árunum 1928-29, útgerðarfélaginu Nirði og togaraútgerð Skutuls á fjórða áratugnum. Var þannig beitt ýmsum ráðum til að halda uppi atvinnu verkafólks og sjómanna á tímum kreppunnar miklu.

Alþýðuhús Ísfirðinga við Norðurveg var reist árin 1934-35 af félögum í Verkalýðsfélaginu Baldri og Sjómannafélagi Ísfirðinga, undir forystu Hannibals Valdimarssonar og Eiríks Einarssonar. Hannibal hafði áður haft forystu um byggingu félagsheimis í Súðavík, þar sem hann tók að sér forystu í félagi verkamanna og sjómanna. Hann flutti til Ísafjarðar árið 1931 og skipaði sér þegar í forystusveit jafnarðarmanna. Hann varð formaður í Baldri árið eftir. Fyrsti félagsfundur Baldurs í Alþýðuhúsinu var haldinn 27. október 1935, í veitingasal í kjallara, en mánuði síðar var fyrsta kvikmyndin sýnd í bíósalnum. Hannibal hafði umsjón með byggingu hússins og var framkvæmdastjóri þess fyrstu árin. Húsið hefur síðan þjónað sem kvikmyndahús kaupstaðarins og var um áratugi helsta samkomuhús Ísfirðinga þar sem fóru fram leiksýningar, tónleikar, skemmtanir, samkomur félaga og pólitískir fundir.

Sterkari samtök

Fyrstu konurnar gengu í Baldur í árslok 1924, og á aðalfundi í janúar árið eftir var lögum félagsins breytt í samræmi við það og nafninu úr verkamanna- í Verkalýðsfélagið Baldur. Verkakonur höfðu stofnað eigið félag árið 1917 og reynt að knýja fram kauphækkun, en ekki haft erindi sem erfiði. Kaup kvenna var yfirleitt um 30% lægra en kaup karla á þessum tíma. Æ síðan var Baldur sameiginlegt baráttutæki alls verkafólks á Ísafirði. Jöfn laun fyrir sömu vinnu voru fest í sessi kringum árið 1960.

Forystumenn Baldurs stóðu fyrir og aðstoðuðu við stofnun verkalýðsfélaga í öðrum byggðum Vestfjarða, svo sem Verkalýðsfélags Hnífsdælinga árið 1924, Verkalýðsfélags Patreksfjarðar 1928, Verkalýðsfélags Álftfirðinga sama ár, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur og Súganda á Suðureyri árið 1931. Frægt varð þegar Hannibal Valdimarsson þáverandi formaður Baldurs var fluttur með valdi frá Bolungarvík til Ísafjarðar sumarið 1932 þegar hann fór að styðja við bakið á verkafólki í Bolungarvík í baráttu fyrir tilverurétti verkalýðsfélagsins.

Árið 1927 stofnuðu jafnaðarmenn og verkalýðssinnar Alþýðusamband Vestfjarða, sem fyrst nefndist Verklýðssamband Vesturlands. Voru það félögin á Ísafirði, Hnífsdal, Flateyri og Bolungarvík sem það gerðu. Fljótlega bættist Brynja á Þingeyri og nýstofnuð félög í Súðavík og á Patreksfirði í hópinn. Alþýðusamband Vestfjarða varð mikilvægt tæki verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum til að ná fram samræmdum kjörum á sjó og í landi fyrir allt verkafólk í fjórðungnum. Munaði þar ekki minnst um samstöðu Baldursfélaga fyrir því að ná kauptöxtum annarra félaga til jafns við það sem náðst hafði á Ísafirði.

Breyttir tímar - traustur grunnur

Verkalýðsfélagið Baldur óx og dafnaði næstu áratugi í samræmi við atvinnulíf á Ísafirði. Fleiri starfsstéttir gengu í félagið og um 1940 stofnuðu nokkrar þeirra sérstakar deildir við félagið. Fyrstir voru vörubílstjórar sem störfuðu innan Baldurs í mörg ár, en einnig voru stofnaðar deildir saumakvenna, starfsstúlkna og netavinnumanna. Deild saumakvenna hjá klæðskerum og við hattagerð nefndist Dyngja, deild starfsstúlkna á sjúkrahúsi og elliheimili nefndist Sjöfn, en deild netavinnumanna Dröfn. Flestar deildirnar störfuðu milli 1940 og 1950, en lögðust síðan af. Innan Baldurs störfuðu áfram fjölmargir starfshópar í fiskvinnslu, almennum þjónustustörfum, verktakastarfsemi og iðnaði.

Samhliða aðild að Alþýðusambandi Íslands og Alþýðusambandi Vestfjarða gekk Verkalýðsfélagið Baldur til liðs við Verkamannasambandi Íslands árið 1965. Forystumenn Baldurs, Björgvin Sighvatsson, Pétur Sigurðsson og Karítas Pálsdóttir hafa öll átt sæti í stjórn sambandsins, sem síðar varð Starfsgreinasamband Íslands. Samningar Baldurs og annarra félaga í Alþýðusambandi Vestfjarða hafa síðustu áratugi tekið mið af heildarsamningum verkalýðsfélaganna í landinu, þó sérstakir samningar hafi verið gerðir milli Alþýðusambands Vestfjarða og atvinnurekenda í fjórðungnum allt fram á þennan dag.

Mörg baráttumál verkalýðsfélaganna hafa náð fram að ganga á síðustu áratugum. Orlof, veikindaréttur, slysabætur, lífeyrissjóðir, starfsréttindi og vinnuvernd eru meðal þeirra réttinda sem verkalýðsfélögin hafa unnið að ásamt hefðbundnum kjaramálum. Með sama hætti hefur starfsemi verkalýðsfélaganna orðið yfirgripsmeiri og margbreytilegri. Flest verkalýðsfélög á Vestfjörðum stóðu að stofnun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga árið 1970. Sjúkra- og styrktarsjóður festi sig í sessi. Orlofssjóður Baldurs eignaðist bæði sumarhús í Vatnsfirði, í Ölfusborgum og víðar í samstarfi við önnur verkalýðsfélög og íbúðir í Reykjavík og á Akureyri til útleigu fyrir félagsmenn. 

Á tímum verðbólgunnar eftir 1980 brunnu launahækkanir jafnóðum upp í hækkandi verðlagi. Verkalýðsfélagið Baldur í samstarfi við Neytendasamtökin hélt úti virku verðlagseftirliti á Ísafirði og í nágrenni og opinni skrifstofu á tímabili. Var gefið út blaðið Baldur með verðkönnunum og fleiri upplýsingum til félagsmanna árin 1983-1995.

Fræðslumál hafa skipað æ stærri sess í starfseminni. Námskeiðahald á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu fyrir trúnaðarmenn og stjórnarmenn í félögum hófust um 1970, en fiskvinnslunámskeið, sem gefa rétt til launahækkana, ruddu brautina fyrir margskonar starfstengt námskeiðahald sem nú þykir sjálfsagður hlutur í öllum starfsgreinum. Verkalýðsfélagið Baldur var í fararbroddi í þjónustu við erlent verkafólk sem hingað hefur leitað til starfa við fiskvinnslu síðustu áratugi. Flestir hafa komið frá Póllandi síðustu ár, og stóð Baldur með Alþýðusambandi Vestfjarða að námskeiðahaldi og útgáfu handbókar fyrir verkafólk á pólsku. 

Verkfallið 1997

Þó að verkalýðsfélögin hafi náð viðurkenningu fyrir mörgum áratugum snýst starf þeirra enn um það grundvallarmarkmið að verkafólk njóti lífskjara sem geri þeim kleift að lifa með reisn og standa jafnfætis öðrum stéttum samfélagsins. Margt hefur áunnist í þeim efnum, en sífellt þarf að setja ný markmið og verja þá áfanga sem náðst hafa.

Verkfallsátök eru sjaldgæfari nú á tímum en áður var. Samningar verkalýðsfélaga og atvinnurekenda fara nú fram samkvæmt nákvæmum reglum og lögum og oft næst samkomulag fyrir tilstilli stjórnvalda sem mikil áhrif hafa á kjör fólks í landinu. Ekki tekst alltaf að ná fram samningum án átaka. Þannig var það vorið 1997 að nokkur verkalýðsfélög innan ASV, undir forystu Verkalýðsfélagsins Baldurs, háðu harðvítugt verkfall á meðan önnur verkalýðsfélög ýmist sættust á minni kröfur eða sátu hjá. Skerðing á kjörum verkafólks, einkum fiskvinnslufólks, hafði þá verið umtalsverð, bæði vegna minnkandi vinnu í landi og hófsamari samninga en aðrar stéttir höfðu náð. Verkafólk á Vestfjörðum taldi sig því knúið til að snúa þróuninni við og þreytti sjö vikna verkfall við erfiðar aðstæður gegn sameinuðu atvinnurekendavaldi á öllu landinu, óvinveittum stjórnvöldum og skilningslausum fjölmiðlum. Baldursfélagar ásamt félögum innan ASV á Hólmavík, í Súðavík, á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri tóku þannig upp hanskann fyrir verkafólk á landinu öllu og sýndi að þegar samtakamáttur og baráttuvilji er fyrir hendi má ná lengra í baráttunni fyrir mannsæmandi kjörum. 

Saga og nútíð

Formenn Verkalýðsfélagsins Baldurs hafa verið: 

  • 1916-1920 Sigurður H. Þorsteinsson
  • 1920-1921 Stefán J. Björnsson
  • 1921-1932 Finnur Jónsson
  • 1932-1939 Hannibal Valdimarsson
  • 1939-1949 Helgi Hannesson
  • 1949-1954 Guðmundur G. Kristjánsson
  • 1954-1957 Björgvin Sighvatsson
  • 1957-1968 Sverrir Guðmundsson
  • 1968-1974 Pétur Pétursson
  • 1974-2002 Pétur Sigurðsson

Verkalýðsfélagið Baldur gerðist ásamt átta öðrum félögum á Vestfjörðum stofnandi Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002. 

Heimildir um Verkalýðsfélagið Baldur

  • Skjalasafn Verkalýðsfélagsins Baldur í Skjalasafni Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 21.
  • Verkalýðsfélagið Baldur 30 ára. Afmælisrit. Ísafirði 1946.
  • Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit. Ísafirði 1986.
  • Sigurður Pétursson. „Bolsarnir byltast fram. Uppgangur verkalýðshreyfingar og valdataka Alþýðuflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðar." Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1985. 28. ár, bls. 39-76.
  • Sigurður Pétursson: „Hannibal Valdimarsson." Andvari 2003. 128. ár, bls. 11-87.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.