Verslunarmannafélag Ísafjarðar

Ísafjörður um 1950. Ljósm. M.Simson/Ljósmyndasafn Ísafjarðar.
Ísafjörður um 1950. Ljósm. M.Simson/Ljósmyndasafn Ísafjarðar.

Verslunarmannafélag Ísafjarðar var stofnað 26. júlí 1957. Fyrsti formaður þess var Jón Páll Halldórsson skrifstofumaður. Félagið gekk þegar í Landssamband íslenskra verslunarmanna, en formaður þess Sverrir Hermannsson vann að undirbúningi og flutti ávarp á stofnfundi félagsins. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands með Landssambandi íslenskra verslunarmanna árið 1964. Verslunarmannafélagið gerðist aðili að Alþýðusambandi Vestfjarða árið 1977, en þá hafði málið verið til umræðu í félaginu um nokkur ár.

Á aðalfundi í september 1975 var samþykkt stækkun á félagssvæði V.Í. þannig að það næði auk Ísafjarðarkaupstaðar yfir Ísafjarðarsýslur báðar að Bolungarvík undanskilinni, þar sem starfaði sérstakt félag. Verslunarmannafélag Bolungarvíkur sameinaðist félaginu í júní 1995.

Verslunarmannafélagið eignaðist árið 1990 sumarbústað við Húsafell í Borgarfirði. Bústaðurinn var seldur árið 1999, en í staðinn keypt orlofshús í Ölfusborgum. Félagið eignaðist einnig íbúð við Ásholt í Reykjavík árið 1993.

Verslunarmannafélagið átti um tíma aðild að sameiginlegri skrifstofu verkalýðsfélaganna á Ísafirði, en opnaði eigin skrifstofu árið 1991 í Hafnarstræði 14 og réð til hennar starfsmann. Félagið flutti starfsemi sína í hús Vestra hf. (Ísfirðingshúsið) árið 1997 og árið eftir hóf Freygerður Ólafsdóttir störf á skrifstofu félagsins.

Verslunarmenn samþykktu í allsherjaratkvæðagreiðslu að félag þeirra tæki þátt í stofnun Verkalýðsfélags Vestfirðinga haustið 2002 og mynduðu sérstaka deild í félaginu.

Samkvæmt gögnum félagsins hafa formenn þess verið:

 • Jón Páll Halldórsson 1957-1960
 • Haukur Ingason 1960-1961
 • Gunnar Jónsson 1962-1964
 • Garðar Einarsson 1964-1973
 • Geir A. Guðsteinsson 1973-1977
 • Eiríkur Sigurðsson 1977-1978
 • Friðrik Adolfsson 1978-1980
 • Anna M. Helgadóttir 1980-1981
 • Elín Tryggvadóttir 1981-1986
 • Salmar Jóhannsson 1986-1992
 • Gylfi Guðmundsson 1992-1998
 • Finnur Magnússon 1999-2002

Eldri félög verslunarmanna

Hafnarstræti á Ísafirði um 1940. Ljósm. M.Simson/Ljósmyndasafn Ísafjarðar
Hafnarstræti á Ísafirði um 1940. Ljósm. M.Simson/Ljósmyndasafn Ísafjarðar

Áður höfðu starfað tvö félög verslunarmanna á Ísafirði. Fyrsta félagið var stofnað 8. febrúar 1905 og nefndist Verzlunarmannafjelag Ísafjarðarkaupstaðar og sýslna. Það var sameiginlegt félag kaupmanna, verslunarstjóra og starfsmanna verslana í bænum. Félagið hélt hátíðlegan frídag verslunarmanna á Ísafirði í fyrst sinn í júlí 1905 með skemmtiferð inn í Tunguskóg. Starfsemi félagsins lagðist af eftir nokkur ár, þó það væri við lýði að nafninu til fram undir 1920.

Annað félag var stofnað 14. maí 1937 undir merkjum Alþýðusambands Íslands. Það hét Verslunarmannafélagið, Ísafirði og starfaði til ársins 1943. Gögn félagsins eru varðveitt í Héraðsskjalasafninu á Ísafirði. Félagið var hreint launþegafélag og náði samningum við verslunareigendur, bakarí og bæjarstofnanir á Ísafirði. Fyrsti formaður Verslunarmannafélagsins var Gunnar Andrew, en seinni árin Sigurjón Sigurbjörnsson. Stór hluti félagsmanna starfaði hjá Kaupfélagi Ísfirðinga. Þegar starfsfólk Kaupfélagsins ákvað að stofna sérstakt starfsmannafélag og semja beint við atvinnurekanda sinn, lagðist verslunarmannafélagið niður. Merki þess var endurreist árið 1957, eins og fram kemur efst á þessari síðu. 

Heimild

 • Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 26. Verslunarmannafélag Ísafjarðar.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.