þriðjudagurinn 10. ágúst 2010

Verk-Vest fær góða gjöf

Karitas, Haukur, Hafsteinn og Pétur með málverkið.
Karitas, Haukur, Hafsteinn og Pétur með málverkið.
1 af 3
 

Haukur Helgason fyrrverandi skólastjóri í Hafnarfirði hefur fært Verkalýðsfélagi Vestfirðinga að gjöf málverk í minningu föður síns, Helga Hannessonar formanns Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði á árunum 1939-1949. Málverkið er af fæðingarstað Helga Hannessonar, Dynjanda í Jökulfjörðum, þar sem foreldrar hans Hannes Helgason og Jakobína Guðmundsdóttir bjuggu. Myndin er máluð af Jóni Hróbjartssyni árið 1929 og sýnir bæjarhúsin á Dynjanda og umhverfi.

 

Myndin var afhent s.l. fimmtudag, þegar Haukur Helgason var hér á ferð ásamt fjölskyldu sinni. Karítas Pálsdóttir gjaldkeri Verk-Vest og Pétur Sigurðsson fyrrum formaður Baldurs og Verk-Vest tóku við gjöfinni fyrir hönd félagsins. Viðstaddur var einnig Hafsteinn Sigurðsson, sonur Sigurðar Hannessonar bifreiðastjóra sem var bróðir Helga.

 

Helgi Hannesson fæddist á Dynjanda í Jökulfjörðum 18. apríl 1907. Fjölskyldan flutti nokkru síðar í Hnífsdal og bjó þar og á Snæfjallaströnd og Ísafirði um hríð. Hannes faðir hans stundaði sjómennsku en Jakobína vann við saltfiskverkun. Jakobína og Helgi Hannesson voru meðal stofnenda Verkalýðsfélags Hnífsdælinga árið 1924 og sátu bæði í stjórn félagsins árið 1927, þegar það háði hálfsmánaðarlangt verkfall til að verja tilvist sína og kjör verkafólks. Síðar tóku þau þátt í starfi Verkalýðsfélagins Baldurs á Ísafirði. Helgi tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands árið 1931 og starfaði við Barnaskólann á Ísafirði næstu ár. Hann var formaður Baldurs 1939-1949. Árið 1948 varð hann bæjarstjóri í Hafnarfirði og sama ár var hann kosinn forseti Alþýðusambands Íslands og gegndi þeirri stöðu í sex ár. Frá 1954 starfaði hann við Tryggingastofnun ríkisins. Helgi Hannesson gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir Góðtemplararegluna og var fyrsti formaður Samtaka sykursjúkra. Hann lést í Hafnarfirði 30. nóvember 1998.

 

Verkalýðsfélag Vestfirðinga þakkar Hauki Helgasyni og fjölskyldu hans ræktarsemi við félagið og minningu Helga Hannessonar formanns Baldurs.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.