þriðjudagurinn 6. september 2005

Ályktun aðalfundar Verk-Vest um atvinnumál

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á aðalfundi Verk-Vest þann 4. sept:


Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn 4. september 2005 mótmælir þeim vandræðum sem stjórnvöld hafa bakað vestfirsku atvinnulífi með efnahagsaðgerðum og risaframkvæmdum á Austurlandi og valdið hafa hruni í sjávarútvegi og vinnslu sjávarafla.


Fundurinn krefst þess að strax verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að atvinnuvegir okkar Vestfirðinga fái að búa við eðlileg rekstrarskilyrði. Ríkisstjórnarflokkunum voru ekki greidd atkvæði í síðustu alþingiskosningum með það að markmiði að rústa atvinnulíf í heilum landshlutum.

Greinargerð.

1. Við Vestfirðingar vorum aldrei hlynntir kvótakerfinu í upphafi, en létum það yfir okkur ganga.

2. Við höfum aldrei viðurkennt að útgerðarmenn einir ættu veiðiheimildirnar og mættu braska með þær að eigin vild, en flestir sætt sig við það í reynd.

3. Við vorum heldur ekki samþykk lögunum um framsal aflaheimilda, en létum það afskiptalaust.
Við sitjum nú uppi með það að meirihluti vestfirskra aflaheimilda hefur verið seldur af svæðinu.

Við sitjum þar að auki uppi með það að stjórnvöld hafa fórnað atvinnuvegum okkar á altari stóriðju og stórvirkjana að þarflausu.

Sagan mun endurtaka sig ef við horfum þegjandi upp á þessa ósvinnu.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.