þriðjudagurinn 22. janúar 2008

Alvarleg tíðindi í atvinnumálum Þingeyringa

Þingeyri við Dýrafjörð
Þingeyri við Dýrafjörð

Á starfsmannafundi hjá vinnslustöð Vísis hf. á Þingeyri tilkynnti Pétur H. Pálsson þær fyrirætlanir eiganda fyrirtækisins að loka vinnslunni frá 1.maí 2008 - 1. október 2008 eða í fimm mánuði. Ekki var annað að heyra en hugur væri til að hefja starfsemina að nýju strax 1. október, því ekki væri um uppsagnir á ráðningasambandi við starfsfólk að ræða. Stóra spurningin er auðvita sú hvort fólk á Þingeyri láti bjóða sér það að vera skammtaðar grunnatvinnuleysisbætur í 5 mánuði. Ég held að fæstir hafi efni á því. Með því að velja ekki að nýta sér þá 60 daga sem heimild er fyrir samkvæmt lögum vegna hráefnisskorts, þá skerðir fyrirtækið möguleika fólksins á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

 
Svör forsvarsmanna eru á þá leið að þeir hyggist nýta þá daga síðar, er sú túlkun staðfest af samskonar fundi sem haldin var með starfsfólki Vísis hf. á Húsavík fyrr í dag, en þar boðuðu forsavarsmenn Vísis hf. jafn langt vinnslustopp og á Þingeyri. Enn og aftur erum við Vestfirðingar að upplifa það að burðarás atvinnulífs í sjávarbyggð verði lokað um lengri tíma, 37 einstaklingar eru nánast settir út á guð og gaddinn og það að velja 1.Maí, baráttudag launþega sem upphaf vinnslustöðvunar er ekki til eftirbreytni.  


Stjórn og trúnaðarráð mætir til fundar
Stjórn og trúnaðarráð mætir til fundar

Fundur stjórnar og trúnaðarráðs Verk Vest samþykkir stuðning við aðgerðarhóp SGS og hvetur landssambönd innan ASÍ til Samstöðu.


Fjölmennur fundur stjórnar og trúnaðarráðs Verk Vest furðar sig á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við hugmyndum ASÍ skatta- og velferðarmálum.


Meira

föstudagurinn 18. janúar 2008

Fyrsta skref í átt til aðgerða launþega

Blása þarf til sóknar gegn atvinnurekendum
Blása þarf til sóknar gegn atvinnurekendum

Það er nokkuð ljóst að Samtök atvinnulífsins (SA) ætla ekki að koma á móts við verkalýðshreyfinguna (ASÍ) í kröfum þeirra um skammtímasamninga. Nokkurs misskilnings virðist gæta hjá forsvarsmönnum atvinnulífsins hvað varðar hugmyndir ASÍ um aðkomu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninganna. Venjan hefur verið sú að launþegahreyfingin hefur lagt fram launakröfur beint til SA sem hafa kostnaðarmetið þær út af borðinu og gjarnan skotið í kaf strax í byrjun. Þá hefur aðkoma ríkisstjórnarinnar jafnan verið á lokasprettinum í formi einhvers bónuss í skatta og velferðarmálum.   


Við gerð þessara kjarasamninga átti að taka alveg nýjan vinkil á viðræðurnar, megináhersla af hálfu launþega var að létta þrýsting við launakröfur á hendur SA og knýja ríkisstjórnina til að koma fyrr að samningaborðinu með sitt útspil. Með því yrði kostnaður atvinnulífsins vegna kjarasamninganna nú minni en ella. Því miður var ekki skilningur á þessari leið hvorki hjá SA eða ríkisstjórninni, vegna þess er deilan komin í þann hnút sem hún er í nú.


Þessi sameiginlega leið landsambanda innan ASÍ hefði skilað láglauna og millitekjufólki mestum ávinningi sem og tryggt þeim sem setið hafa eftir í launaþróun réttmæta leiðréttingu.


Á fundi viðræðunefndar SGS, sem haldin var í húsi ríkissáttasemjara í gær, var ákveðið að stíga fyrsta skrefið í átt til aðgerða með því að setja á fót aðgerðanefnd. Þessi ákvörðun var ekki tekin af neinni léttúð enda um grafalvarlegt mál að ræða þegar launþegar neyðast til að beyta því eina vopni sem þeir hafa til að knýja fram samninga. Það er þó von launþegahreyfingarinnar að SA sjái ljósið í myrkrinu og snúist á sveif með launþegum gagnvart ríkinu þannig að stöðugleiki og jafnvægi í efnahagsmálum verði það sem þessir kjarasamningar skili, okkur öllum til hagsbóta.


fimmtudagurinn 10. janúar 2008

Kjaradeilan til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasambandið og Flóafélögin vísuðu kjaradeilunni til ríkissáttasemjara í dag. Kröfurnar eru skýrar. Fundur er boðaður með aðilum n.k. mánudag.  Eins og fram hefur komið lagði verkalýðshreyfingin fram tillögu að þríhliða sátt aðila vinnumarkaðarins og ríkisins til lausnar kjaradeilunnar sem nú stendur.
Meira

Eftir að samningaviðræðum var slitið fyrir jól eru viðræður SGS og SA komnar á fullt skrið að nýju. Þrátt fyrir að samningar hafi verið lausir frá áramótum virðist lausn deilunnar ekki vera í sjónmáli. Áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum er ekki sú innspýting sem vonast var eftir.  Á formannafundi landsbyggðarfélaga innan SGS sem haldin var 7. janúar sl. var farið yfir stöðuna og hvað skerf yrðu farin næst með eða án aðkomu ríkisstjórnarinnar.
Meira

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.