mánudagurinn 27. janúar 2020

Hvert fara peningarnir mínir?

Hvað er þetta félagsgjald sem er dregið af laununum mínum?

 

Jú, þetta er svokallað vinnumarkaðsgjald sem rennur til þess stéttarfélags sem hefur samið um kaup og kjör fyrir starfið sem viðkomandi vinnur. Stéttarfélögin sjá um að semja um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína og félagsgjaldið er nýtt til reksturs stéttarfélaga. Fyrir félagsgjaldið er til dæmis samið um lágmarkslaun, orlof, uppsagnarfrest, orlofs- og desemberuppbætur, bónusgreiðslur, sjúkrasjóði, veikindarétt, slysatryggingar, fæðingarorlof, hvíldartíma, lífeyrissjóð og ódýrt leiguhúsnæði svo eitthvað sé nefnt. Auk þessa sjá stéttarfélög um gerð vinnustaðasamninga starfsfólki til hagsbóta.

Það er ekki nóg að semja um þessi réttindi, heldur er það verkefni stéttarfélaga að verja þessi réttindi þegar brotið er á fólki, fyrst með samskiptum við atvinnurekendur, og svo oft á tíðum með aðstoð lögmanna við að reka mál fyrir dómi. Stéttarfélög standa fyrir fræðslu um réttindamál í skólum og á vinnustöðum auk þess sem haldin eru námskeið fyrir trúnaðarmenn, en þeir eru tenging stéttarfélaganna inn á vinnustaði.

Hluti félagsgjaldanna rennur í vinnudeilusjóð, en sá sjóður ber kostnað af vinnudeilum og greiðir verkfallsstyrki.

 

Fær stéttarfélagið meiri pening frá mér heldur en félagsgjaldið?

 

Jú, mikið rétt. Stéttarfélögin hafi líka samið um aukinn rétt fyrir launafólk, en það eru starfsmenntasjóðir, orlofssjóðir og sjúkrasjóðir. Í þessa sjóði greiða atvinnurekendur í hlutfalli við laun starfsfólks sinna fyrirtækja, en til hvers?

 

Sjúkrasjóðir hafa einn megin-tilgang, en það er að greiða félagsmönnum sjúkradagpeninga þegar þeir eru í veikindum og hafa fullnýtt veikindarétt sinn hjá atvinnurekanda. Þegar sjúkrasjóðir standa undir þessum greiðslum og eiga afgang er þeim afgangi deilt út til félagsmanna í formi aukinna dagpeninga eða styrkja, en allir eiga þessir styrkir það sameiginlegt að taka á heilsu fólks með einum eða öðrum hætti. Stéttarfélög búa sér sjálf til reglur um hvernig þau deili þessum fjármunum út til félagsmanna byggðar á fjárstyrk sjóðsins, en flestir styrkja fyrirbyggjandi aðgerðir, s.s. heilsueflingu og skimun fyrir krabbameinsleit. Einnig styrkja sjúkrasjóðir félagsmenn sem verða fyrir heilsubresti, hvort sem er vegna sjúkdóma eða slysa. Dæmi um þessa styrki væri læknisfræðilega rannsóknir, aðgerðir á augum, hjálpartæki s.s. gleraugu og heyrnartæki, meðferð hjá sjúkraþjálfara, meðferð hjá sálfræðingi og dvöl á heilsustofnun. Líka er stutt við og glasa- og tæknifrjóvgun, veittur fæðingarstyrkur, og svo að lokum dánarbætur.

 

Orlofssjóðir hafa þann tilgang einan að gera félagsmönnum kleift að njóta orlofs. Í þeim tilgangi fjárfesta félögin í sumarhúsum og íbúðum sem eru svo leigð á góðum kjörum til félagsmanna. Þar að auki niðurgreiða orlofssjóðir valda orlofskosti fyrir félagsmenn.

 

Starfsmenntasjóðir hafa þann tilgang að opna möguleika félagsmanna til að styrkja sig í starfi og leik með því að sækja sér aukna menntun, en þessir sjóðir styrkja bæði starfstengt nám og alls kyns frístundanám.

 

Allir þessir sjóðir eiga það sameiginlegt að þeir safna ekki fjármunum. Ef sjóðir eiga meira eru réttindi félagsmanna til styrkja aukin, en ef sjóðirnir standa illa eru réttindin skert á meðan.


Á liðnum misserum hefur þess orðið vart að atvinnurekendur taki sér sjálfdæmi um það til hvaða stéttarfélaga þeir skila félagsgjöldum og öðrum kjarasamningsbundnum iðgjöldum vegna starfsmanna sinna. Með þessu hafa atvinnurekendur haft að engu lög einstakra stéttarfélaga innan ASÍ hvað varðar félagssvæði þeirra og bera fyrir sig frelsi starfsmanna til þess að velja sér stéttafélag.

 

Félagafrelsi?

Mikill misskilningur er á almennum vinnumarkaði um hugtakið félagafrelsi og hvort einstaklingar geti valið sér stéttarfélag eftir geðþótta þvert á félagssvæði og jafnvel kjarasamninga.

 

Verkalýðsfélag Vestfirðinga fer með samningsrétt á félagssvæði félagsins sem er skilgreint í 1. gr. laga félagsins. Samkvæmt kjarasamningum sem félagið á aðild að og lögum nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla ber atvinnurekendum að skila vinnuréttargjöldum af störfum sem falla undir samningssvið Verk Vest til félagsins. Í 5 gr. laga Verk Vest er fjallað um starfssvið félagsins og er þar að finna ítarlega upptalningu á þeim störfum sem falla undir starfssvið félagsins. Þá fjallar 6 gr. laga félagsins um rétt til inngöngu í félagið.

 

Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi, ákvæðum laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna er launafólki frjálst að standa utan stéttarfélaga þótt því beri aftur á móti skylda til þess að taka þátt í fjármögnun kjarnahlutverks stéttarfélaganna sem er að gera lágmarks kjarasamninga sem ná til allra óháð formlegri félagsaðild.  

 

Frelsi til að velja félag?

Verkalýðsfélag Vestfirðinga fer með samningsrétt á félagssvæði félagsins sem er skilgreint í 1. gr. laga félagsins. Samkvæmt kjarasamningum sem félagið á aðild að og lögum nr. 19/1979 ber atvinnurekendum að skila vinnuréttargjöldum af störfum sem falla undir samningssvið Verk Vest til félagsins. Í 5 gr. laga Verk Vest er fjallað um starfssvið félagsins og er þar að finna ítarlega upptalningu á þeim störfum sem falla undir starfssvið félagsins. Þá fjallar 6 gr. laga félagsins um rétt til inngöngu í félagið.

 

Launafólki er því frjálst á grundvelli félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar að ákveða hvort það vilji standa innan stéttarfélaga eða utan og taka þátt í félaglegri starfsemi þess. Því ber þó að greiða iðgjald til þess stéttarfélags sem gerir kjarasamning þann sem tekur til starfsins og þannig tryggja kjarasamningsbundin réttindi félagsmanna.

 

Rétt er að benda á 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en skv. því ákvæði er atvinnurekendum óheimilt að hafa áhrif á félagsaðild og stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna.

Má þar vísa til álits ASÍ þegar Hvalur hf. Flutti alla starfsmenn frá VLFA þegar félagið var í deilum við Hval. https://www.asi.is/um-asi/utgafa/frettasafn/almennar-frettir/asi-fordaemir-ologleg-afskipti-forstjora-hvals-hf-af-stettarfelagsadild-starfsmanna-sinna/

 

Félagafrelsi er ekki frelsi atvinnurekenda til þess að velja stéttarfélag fyrir starfsmenn sína. Skipulag það sem gildir á íslenskum vinnumarkaði um gerð kjarasamninga byggir á lögum, annars vegar lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og hins vegar um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því að jafnan fari eitt stéttarfélag með umboð til þess að gera kjarasamninga um þau störf sem unnin eru á tilteknu svæði eða vegna tiltekins hóps launamanna.

 

Einnig er ástæða til að benda á að með því að iðgjaldi sé skilað til rétts stéttarfélags er aðstoð félagsins við félagsmanninn tryggð, komi eitthvað upp á í sambandi félagsmanns og vinnuveitandans. Hafi iðgjaldi verið skilað til félags sem ekki hefur umboð á félagssvæðinu getur Verk Vest ekki tryggt réttindi viðkomandi komi til ágreiningsmála við atvinnurekanda.

Erfitt getur reynst fyrir stéttarfélag sem ekki hefur umboð á félagssvæðinu að verja réttindi við slíkar aðstæður.

 

Á heimasíðu ASÍ má lesa ítarlega umfjöllun um aðild að stéttarfélögum https://www.asi.is/vinnurettarvefur/stettarfelog-og-vinnudeilur/stettarfelog/adild-ad-stettarfelagi/

 


Verk Vest barst eftirfarndi pistill frá forvígismönnum Þingeyrararakademíunnar.

Í fréttum liðinnar viku var þetta meðal þess helsta:

Ríkisbankarnir Landsbankinn og Íslandsbanki greiða samtals tæpa 40 milljarða króna í arð vegna reksturs 2017.

   Og verður nú ekki undan því vikist að rifja eftirfarandi upp:

   Milli 1700 til 2000 eldri (heldri) borgarar hafa ekkert nema einfaldan lífeyri frá Tryggingastofnun til að lifa á segir Mogginn og ekki lýgur hann. Hvað ber til þess? Þetta er fólkið sem ásamt öðrum hefur lagt grunninn að velmegun landsins. Grunninn að bankakerfinu og ótal mörgu fleira. Það má lepja dauðann úr skel. En varðhundar kerfisins fá afturvirkar eingreiðslur upp á milljónir króna. Fyrir utan alla bitlingana. Fyrir hvað? Forseti vor hefur svarað þeirri spurningu.

   Hin nafnkunna Þingeyrarakademía ályktaði svo um daginn:

    Ellilífeyrisþegar, sem ekkert hafa til að moða úr nema einfaldan ellilífeyri, fái strax tvær milljónir króna og það skattfrjálst úr sameiginlegum sjóði landsmanna, sem afturvirka eingreiðslu.

     Hvar á að taka peningana? Af arði Landsbankans segir akademían. Reiknum með að þetta séu 2000 manns. Tvær milljónir á mann gera fjóra milljarða króna. Eins og dropi í hafið fyrir banka allra landsmanna! Sé Íslandsbanki tekinn með í þennan reikning, er þetta rúm 10% af arði beggja þessara ríkisbanka á liðnu ári.

   Það þarf engan starfshóp eða nefnd í þetta mál segja mannvitsbrekkurnar í Þingeyrarakademíunni. Ekkert vesen! Skyldi fjárveitingavaldið hafa vit á að gera þetta? Varla. En hvers vegna ekki? Eru afturvirkar eingreiðslur bara fyrir varðhunda kerfisins sem við kjötkatlana sitja og vita ekki aura sinna tal?

Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson  


laugardagurinn 6. maí 2017

Pistill Kolbrúnar Sverrisdóttur 1. maí 2017

Góðir félagar, ég er þakklát fyrir að fá að taka þátt í baráttu samkomu okkar ísfirðinga. Hér í bænum hafa verið öflugir forystumenn og leiðandi í verkalýðsbaráttu á Íslandi. En draumsýn vestfirskrar alþýðu um jöfn kjör og mannsæmandi lágmarkslaun á ekki lengur hljómgrunn hjá stjórnmálastéttinni né verkalýðsrekendum á borð við þá sem reka Alþýðusamband Íslands ehf.

Sú óhugnanlega misskipting sem er orðin á Íslandi truflar mig, það svífur svipur fátæktar, græðgi og hroka yfir þjóðinni, almennastur er kannski ört vaxandi menntahroki, fólk telur sig vera hvorki meira né minna en MM, það er að segja meira mikilvægt en við hin sem erum einungis MM, sem er þá minna mikilvæg.

Þetta kemur berlega í ljós þegar samið er um kaup og kjör, þá er byrjað á að semja fyrir, takið eftir það er samið fyrir þá sem lökust hafa kjörin, það er að segja MM, það er minna mikilvægum. Þess er vandlega gætt að kjarabreytingar þeirra, við skulum ekki tala um kjarabætur í þessu sambandi, þess er vandlega gætt að kjarabreytingar þeirra valdi ekki vanda í efnahagslífi þjóðarinnar.

Þegar búið er að semja fyrir okkur sem ekki teljumst mikilvæg koma stórir MM fram á sviðið, það eru þessir meira mikilvægu. Þeir semja sjálfir um kaup og kjör og benda fullir vandlætingar á að þeirra laun verði að hækka meira en hins einfalda almúga. Þau telja upp gráður og próf sem skilji þau að fullu frá lýðnum. Í stað þess að benda á eigið ágæti snúast þau gegn okkur hinum sem stritum lífið án enda án nokkurs mikilvægis. Og talandi um það, nú eru eru fyrirtækin hætt að gefa stjórunum gullúr á stórum stundum. Nú fá allir alvöru menn ökklabönd ásamt auðvitað niðurfellingum í boði okkar almúgans.

Þegar verkalýðsrekendur semja fyrir hönd okkar fórnanlegu kemur enn eitt emmið, þá eru mættir MMM, það eru miklu mikilvægari menn. Kannski að ofurlaunamaðurinn Gylfi Arnbjörnsson sé táknmynd þeirrar stéttar.

Af því að ég talaði hér í upphafi um vestfirska verkalýðsforingja, þá er gaman að geta þess að fjölmiðillinn Stundin gerði úttekt á launum verkalýðsforingja um allt land. Þar kom fram að hann Finnbogi okkar hérna er lægst launaði formaður landsins. 
Nú er ég ekki að lýsa ánægju með að launin séu lægst hér, heldur hitt að hér séu foringjar í takt við sitt fólk í stað þess að vera i fílabeinsturni langt frá fólkinu, vonum þess og væntingum.

Við stöndum andspænis miklum vanda vegna óhugnanlegrar misskiptingar. Ungt fólk á orðið litla möguleika til að eignast þak yfir sig og sínar fjölskyldur. Allt er þetta vegna þeirrar fjármálastefnu sem ríkt hefur í landinu alla þessa öld. Fólk leigir fyrir okurfé og oftar en ekki hjá hrægammasjóðum sem ríki og bæjarfélög hafa fært íbúðir á silfurfati.

Reyndar hafa einhverjir grínistar á Alþingi lagt til að þetta verði leyst með því að foreldrar greiði börnunum arf fyrirfram. Þessir sérkennilegu húmoristar ætlast sjálfsagt til þess að ég selji alla fermetrana mína hér á Ísafirði til að börnin geti öll keypt sér íbúðir í Reykjavík, þar sem þau búa.

Um þetta grín þingheims segi ég bara eins og unglingarnir: Hversu steikt erum við orðin!

Kannski verður næst krafa um að við deyjum fyrr.

Ofaní kaupin á þessum hræðilega húsnæðismarkaði þar sem leiguverð er ekki í neinum takti við launaþróun í landinu sjáum við fram á óteljandi félagsleg vandamál komandi kynslóða sem hafa hrakist á milli leigusala og skólahverfa og hvergi náð að festa rætur. Menn sem hafa auðlindir hafsins í hendi sér geta á einu augnabliki svæft heilu þorpin og skilið eftir í auðn og tómi án þess að nokkur geti rönd við reist. Þá er ekki talað um forsendubrest og brugðist við, nema auðvitað með einhverju þinglegu gríni.

Venjulegt fólk hefur ekki lengur efni á að leita læknis ,heilbrigðiskerfið er í molum löggæslan er fjársvelt og það sem mér þykir áhugaverðast þá er lítill sem enginn áhugi hjá yfirvöldum að efla skattayfirvöld og taka föstum tökum þá mýmörgu sem stunda fyrirtækjarekstur og skila litlu sem engu til samfélagsins ,hversu marga spítala væri hægt að byggja ef allir myndu gjalda keisaranum sitt .

Það er ljóst að einhverstaðar höfum við hrakist af leið í baráttu fyrir bættu kjörum, misskipting og fátækt er orðin meiri í landinu en nokkurn grunar og ekki  þýðir ekki lengur að stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við þann vanda .

Að mínu mati verðum við að bregðast við strax, það er ekki hægt að hafa þennan séríslenska hugsunarhátt, þetta reddast þegar líf og heilsa fólks er að veði. Við þurfum að standa vörð um þá sem minna mega sín og það er okkar sem getum unnið og barist að verja þá .

Við þurfum að fá mannsæmandi laun fyrir þá lægst launuðu. Við þurfum jafnvel að láta þá betur stæðu sitja á hakanum á meðan við náum þeim sem lifa í örbirgð upp úr því hræðilega hlutskipti.

Við þurfum að spyrna við fótum og láta vita að það sé ekki boðlegt á meðan fólk sveltur og á hvergi höfði sínu að halla að ráðamenn þjóðarinnar já og verkalýðshreyfingar skammti sér rífleg yfirstéttarlaun á meðan hún kastar brauðmolum í samningum hinna vinnandi stétta.

Við eigum gjöfular auðlindir sem eðlilegt væri að við, eigendurnir hefðum hagnað af. Með gjaldtöku á nýtingarétti og uppstokkun á siðlausu og gjörspilltu fjármálakerfi þarf engin  að líða skort. Á meðan þessi mál eru í ólestri breytist ekkert á Íslandi.

Þið hafið öll heyrt fréttir um launahækkanir aðalsins, það er mælt í tugum prósenta, núna í dag, á sjálfum baráttudegi verkalýðsins hækka laun okkar almúgans um 4,5 prósent. Það væri kannski rétt að fyllast þakklæti og klappa hraustlega fyrir Alþýðusambandi Íslands ehf. ?

Talandi um spillingu er ekki úr vegi að geta þess að Lífeyrissjóðir landsins eru fremstir í flokki við að arðræna alþýðu þessa lands. Þar sitja saman verkalýðsrekendur og kollegar þeirra úr röðum atvinnurekenda. Þarna sameinast þeir við að gambla með lífeyri alþýðunnar sem ekkert hefur um þessa stóru sjóði sína að segja. Þeirra er að greiða, þegja og þiggja.

Það myndi gleðja mig mikið ef Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefði forgöngu um að þeir sem eiga lífeyrissjóðina, það er launafólk, myndi kjósa og velja stjórnendur þeirra. Ég veit ekki hvað atvinnurekendur myndu segja ef verkalýðurinn mætti kjósa meirihluta stjórnar í fyrirtækjunum þeirra.

Ég el mér þá von í brjósti eftir hallarbyltinguna í VR á dögunum að okkar tími sé kominn .

Við getum snúið þessari vondu þróun við ef við tökum slaginn saman.

Ef við náum að brjóta auðvaldið á bak aftur getum við búið hér, stétt með stétt.


föstudagurinn 5. maí 2017

1. maí ræða Lilju Rafneyjar á Suðureyri

1 af 2

Góðir félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Sjaldan eða aldrei í sögu íslenskrar þjóðar hefur efnahagur landsins verið jafn góður og nú um stundir,okkur hefur tekist með sameiginlegu átaki þjóðarinnar og hagstæðum ytri skilyrðum m.a. með fjölgun ferðamanna,öflugum sjávarútvegi,makrílveiðum og annara hagstæðra ytri skilyrða tekist að vinna okkur hratt út úr Hruninu.

Það mætti því ætla að smjör drypi af hverju strái og hagur almennings og landsins alls væri traustur og hægt væri að bæta kjör þeirra sem höllum fæti standa og efla t.d. innviði á landsbyggðinni.

En það er ekki sá veruleiki sem alltof stór hluti þjóðarinnar býr við því miður. Ég vil nefna hér tvennt sem endurspeglar ójöfnuð sem viðgengst í okkar ríka samfélagi.

Fátækt er veruleiki alltof margra og lýsir sér með margvíslegum hætti . Helstu áhættuhópar eru tekjulágt fólk ,einstæðir foreldrar með börn og aldraðir og öryrkjar.

Fátæk börn eru smánarblettur á þjóðfélagi sem tilheyrir ríkustu þjóðum heims og í dag líða um 10% barna skort á Íslandi.

Það er eitthvað mikið að hjá þjóð sem telur sig búa í velferðarþjóðfélagi en lætur slíkt samt viðgangast.

Því börn eru sá hópur sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og verða að sætta sig við þær aðstæður sem þeim eru skapaðar hverju sinni. Þau líða fyrir fátækt á heimili sínu hverjar svo sem orsakir fátæktarinnar eru. Sum börn bíða þess aldrei bætur og félagslega geta þau orðið utan garðs og ekki þátttakendur í því samfélagi sem þorri bara á Íslandi hefur aðgang að.

Það er dapurlegt að vita til þess að fjöldi barna fer á mis við ótal hluti sem teljast sjálfsagðir í nútímasamfélagi. Þar má nefna íþróttir,listnám og annað uppbyggilegt frístundastarf sem öll börn óháð efnahag foreldra ættu að hafa aðgang að.

Mikil hætta er á að í neysluþjóðfélagi okkar beri fátæk börn það með sér með einhverjum hætti t.d. í klæðaburði og öðru hvernig ástatt er og að þau verði fyrir aðkasti og einelti skólafélaga sinna og eru þar með komin í félagslegan áhættuhóp. Allt þetta dregur úr möguleikum þeirra í framtíðinni til sömu lífsgæða og tækifæra sem önnur betur sett börn hafa.

Oftar en ekki lenda foreldrar fátækra barna í tímabundnum áföllum sem þarf að vera hægt að bregðast við strax svo þeir geti náð sér aftur á strik sem fyrst og lendi ekki í vítahring fjárhagserfiðleika sem ekki er hægt að komast út úr.

Stór hluti vandans eru lág laun umönnunarstétt og verkafólks. Laun hefðbundinna kvennastétta í kennslu og heilbrigðisstéttum eru ekki metin að verðleikum til jafns við ábyrgðarstörf sem felast í að höndla með fjármuni. Það er ólíðandi að laun fyrir 100 % starf standi ekki undir lágmarksframfærslu.

Skattgreiðslur láglaunahópa hafa aukist á síðustu árum þar sem skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu og verið er að eyðileggja þrepaskipt skattkerfi. Ríkisvaldið hefur tekið meira og meira af lágum tekjum fólks í skatta og ýtt undir það að fólki lendi í fátæktargildru.

Í velferðarríki gegnir ríkisvaldið mikilvægu hlutverki til að jafna afkomu fólks og möguleika. Tekjujöfnunaraðgerðir geta bætt hag fátækra barna á Íslandi nú þegar og fjárfest þar með í framtíð þeirra með því að afla tekna af hinum tekjuháu í þjóðfélaginu.

Launahækkanir undanfarinna missera hafa skilað sér misvel til almennings í landinu og fyrirtæki eru misburðug til að rísa undir þeim. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin mala gull meðan mörg þau minni á landsbyggðinni reyna að halda sjó. Stærsta atvinnugrein þjóðarinnar í dag ferðaþjónustan er alltof oft uppvís af því að greiða lág laun undir kjarasamningum sem bitnar oftar en ekki á ungu og erlendu starfsfólki ,slíkt á ekki að líðast. Sjávarútvegsfyrirtæki hóta að fara með vinnslu úr landi ef verkafólk og sveitarfélög dansa ekki eftir þeirra höfði. Kúgunartæki eru allt of víða í gangi sem menn veifa eða beita þegar halda á fólki á mottunni og sína hver ræður. Peningar og völd eru stjórntæki sem beitt hefur verið gegn launafólki í háa herrans tíð og gert er enn í dag.

Aukin misskipting og fátækt eru afleiðing þess að fjármunum er stýrt kerfisbundið þangað sem þeir eru fyrir. Þeir ríku verða ríkari og fátækari fátækari það er gömul saga og ný.

En auðvita er þetta ekkert náttúrulögmál og verkalýðshreyfingin þarf að taka sér tak og gera betur fyrir sitt fólk einnig stjórnvöld,sveitarfélög og ýmis félagasamtök , hvert og eitt okkar getur líka haft áhrif.

Við verðum að beita öllum tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir félagslegan ójöfnuð og fátækt.

Það er vissulega ekkert náttúrulögmál að einhver hluti þjóðarinnar þurfi að búa við fátækt eða örbirgð heldur er það samfélagsmein sem unnt er að uppræta ef vilji er fyrir hendi.

Ég vil líka koma inná misjöfn búsetuskilyrði eftir landsvæðum það er vissulega stór hluti af lífskjörum launafólks á viðkomandi svæði.  Kostnaður vegna þátta eins og t.d. heilbrigðisþjónustu,menntunar,orkuverðs,vöruverðs,flutningskostnaðar,samgangna,nýframkvæmda og annarar þjónusta vigtar þungt hjá þeim sem búa í mikilli fjarlægð frá stórhöfuðborgarsvæðinu. Aðrir þættir vega vissulega þarna jákvætt upp á móti en við eigum að standa fast á þeirri kröfu að búsetuskilyrði séu jöfnuð.

Það er kjarabót sem skiptir máli fyrir allt launafólk sem vill búa a landsbyggðinni og gerir þá sjálfsögðu kröfu að þjónustustigið sé gott og grunnþjónustan sé tryggð. Það er því miður veruleikinn víða að þjónustustigið hefur dregist saman á mörgum stöðum ekki bara í minnstu byggðunum heldur líka á stærri stöðum. Þetta skrifast á ýmsa þætti s.s. breytt rekstrarumhverfi en einnig á opinbera og einkaaðila. Það vantar sárlega samfélagslega ábyrgð í allar ákvarðanartökur í stað þess að ákvarðanir stjórnist eingöngu af hámarks arðsemi og græðgi.

Yfirskrift dagsins er „Húsnæði-sjálfsögð mannréttindi „ við þekkjum öll umræðuna um uppsprengt húsnæðisverð og rokdýrt leiguverð á höfuðborgarsvæðinu þar þarf vissulega að taka til hendinni svo venjulegt launafólk geti átt þess kost að búa við þau mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði. Á landsbyggðinni er annarskonar vandi í húsnæðismálum þar hefur varnarbarátta verið háð lengi vegna neikvæðrar íbúaþróunar en lítið sem ekkert verið byggt sökum lágs markaðsverðs og hás byggingarkostnaðar. Þar er sívaxandi ásókn í sumarhús í þéttbýli og víða skortir orðið leiguhúsnæði fyrir fólk sem er að byrja að búa eða vill minnka við sig og vill búa á landsbyggðinni en hefur ekki aðgengi að fjármagni til að byggja eða kemst ekki í öruggt leiguhúsnæði. Verkalýðshreyfingin hefur farið í samstarf við sveitarfélög í stærstu sveitarfélögunum um uppbyggingu almennra íbúða en landsbyggðin má ekki gleymast þar býr launafólk sem á rétt á að búa við aðgengi að öruggu húsnæði. Launþegahreyfingin hefur skyldur gagnvart öllum launþegum og á að taka slaginn með landsbyggðinni líka í húsnæðismálum.

Verkalýðshreyfingin kom með öflugum hætti að uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni á sínum tíma og væru mörg byggðarlög illa stödd ef það húsnæði væri ekki til staðar í dag.

Nú þarf Verkalýðshreyfingin ,stjórnvöld og sveitarfélög að horfa til landsbyggðarinnar í uppbyggingu á húsnæði því áframhaldandi þensla á höfuðborgarsvæðinu er engum til góðs.

  Ef framboð á húsnæði er ekki til staðar þá fáum við ekki fólk til þess að flytja til landsbyggðarinnar og unga fólkið leitar áfram annað ef húsnæði og atvinnutækifærin eru ekki til staðar.

Verkalýðshreyfingin er fjöldahreyfing sem getur látið til sín taka og haft áhrif ,hún er ekki bara forystan hverju sinni heldur fólkið sjálft sem skipar hreyfinguna . Það fólk þarf að fylgja fast eftir baráttunni fyrir bættum kjörum-baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði og fylgja eftir þeirri kröfu að búsetuskilyrði landsmanna séu jöfnuð.

Góðir félagar við erum ein þjóð með fjölbreytta flóru  íbúa og eigum auðlindir landsins saman og kjör almennings eiga að endurspeglast í þeirri staðreynd. Það eiga allir að njóta góðs af batnandi hag þjóðarinnar og fá sömu tækifæri í lífinu óháð búsetu og efnahag.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.