föstudagurinn 12. mars 2021

Sumarúthlutun orlofshúsa

Þann 15. mars verður opnað fyrir umsóknir um orlofshús hjá Verk Vest sumarið 2021. Félagsmenn geta farið inn á orlofsvef félagsins og sótt um með því að velja: Sumar.

Félagið býður upp á orlofshús fyrir félagsmenn í öllum landshlutum sumarið 2021. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Einarsstaðir á héraði

Flókalundur í Vatnsfirði

Illugastaðir í Fnjóskadal 

Svignaskarð í Borgarfirði

Ölfusborgir við Hveragerði

Orlofshúsin eru leigð í viku frá föstudegi til föstudags. Hægt er að sækja um eina viku með allt að fjórum valmöguleikum. Tímabilið hefst föstudaginn 14. maí og lýkur þann 10. september. Verð fyrir viku er 30.000.kr. Félagsmaður þarf að eiga að lágmarki 36 punkta til að geta sótt um.

Umsóknarfrestur rennur út 7. apríl 2021

Fyrsta úthlutun fer fram 8. apríl og munu allir þeir sem sóttu um fá senda niðurstöðu úthlutunarinnar í tölvupósti.

Félagið á einnig hlut í orlofshúsi á Spáni og er það leigt í tvær vikur í senn að sumrinu, frá mánudegi til mánudags. Í sumar auglýsa ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Vita og Úrval Útsýn vikuleg flug til Alicante með brottför og heimkomu á mánudögum. Sumarleiga á Spáni er óbreytt og er leiguverð fyrir tvær vikur er kr. 103.000 og er skilagjald innifalið í leiguverði. Ekki þarf að eiga punkta til að panta húsið. Hér er hægt að skoða laus tímabil á Spáni, en íbúðin en eingögnu bókanleg í gegnum Verk Vest í síma 456 5190.

Á orlofsvef félagsins er einnig hægt að kaupa, hin ýmsu kort og ferðaávísanir á gistiheimilum og hótelum víðs vegar um landið. Ferðaávísunin er inneign sem hægt er að nota til að greiða fyrir gistingu hjá einhverjum af fjölmörgum samstarfsaðilum okkar. Við kaupin fær félagsmaður hlutfallslega niðurgreiðslu frá Verk Vest.


föstudagurinn 12. mars 2021

Öryggismál sjómanna - Drífa Snædal skrifar

Enn eru menn sem voru í áhöfninni á Júlíusi Geirmundssyni að glíma við eftirköst covid-veikindanna sem komu upp um borð. Skipstjórinn lagði heilsu áhafnarinnar í hættu með því að halda áfram veiðiferð þrátt fyrir smit meðal áhafnarinnar. Enn er of snemmt að segja hvort einstaka sjómenn nái sér að fullu en nú eru fimm mánuðir liðnir frá þessu glæpsamlega athæfi. Samkvæmt sjómannalögum ber skipstjóri nær alla ábyrgð um borð en hafa skal í huga að lögin eru miðuð út frá þeim veruleika að fjarskipti voru lítil sem engin við útgerð. Í dag eru skipstjórar iðulega í miklum samskiptum við útgerðina í landi varðandi ákvarðanir um borð og nær óhugsandi að útgerðin hafi ekki verið meðvituð um stöðuna og verið með í ráðum. Engu að síður gengur þessi tiltekni skipstjóri fram fyrir skjöldu og axlar ábyrgð en útgerðin er laus allra mála. Dómurinn yfir skipstjóranum er svo í engu samræmi við alvarleika málsins þar sem hann er sviptur skipstjóraréttindum í fjóra mánuði en heldur réttinum til að vera stýrimaður á meðan. Stýrimaður leysir skipstjóra af og því hefur þessi dómur nær engin áhrif á hvorki skipstjóra né útgerð.

Eftir sitja sjómenn í þeirri stöðu að yfirmenn þeirra og atvinnurekendur leggja þá í stórhættu, útgerðin þarf enga ábyrgð að taka og skipstjórinn er snupraður af dómstólum. Það er erfitt að gera sér í hugarlund líðan þessara skipverja, traust þeirra til atvinnurekanda og upplifun af öryggi við vinnu. Til að bíta höfuðið af skömminni var umræddur skipstjóri mættur um borð í síðustu veiðiferð, nú í stöðu yfirstýrimanns. Þrátt fyrir að grettistaki hafi verið lyft í öryggismálum sjómanna er sjómennska nú, eftir sem áður, með hættulegri störfum sem Íslendingar vinna. Starfið eitt og sér er hættusamt og algjörlega óásættanlegt að nú hafi bæst við einn stóralvarlegur áhættuþáttur fyrir sjómenn, þ.e. að þeir geti átt von á að lífi og heilsu sé stefnt í hættu með slæmum ákvörðunum skipstjóra og/eða útgerðar.

Við erum komin áratugi aftur í tímann þar sem sjómenn þurfa í alvöru að berjast fyrir lágmarks öryggi og ekki verður séð að útgerð né samtök útgerðarmanna setji líf og heilsu fram yfir gróða. Þessu máli er ekki lokið og munu stéttarfélög þeirra sjómanna sem í hlut eiga áfram standa með þeim til að ná einhverri sanngirni og réttlæti. Það mun ASÍ líka gera.

Góða helgi,
Drífa


fimmtudagurinn 11. mars 2021

Mínar síður fyrir félagsmenn Verk Vest

Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefur opnað Mínar síður fyrir félagsmenn á heimasíðu félagsins. 

Á mínum síðum geta félagsmenn:

  • Sótt um styrki
  • Bætt fylgiskjölum við umsóknir
  • Séð stöðu umsókna
  • Uppfært persónuupplýsingar
  • Skoðað áður afgreiddar umsóknir

Til að fá aðgang að Mínum síðum þarftu að vera með rafræn skilríki eða Íslykil. Þú getur sótt um Íslykil inn á mínum síðum, ef þú átt hann ekki nú þegar.

Við hvetjum félagsmenn til að skrá sig inn til að prófa virkni síðunnar. Ef þið lendið í vandræðum með innskráninguna þá er starfsfólk félagsins boðið og búið að aðstoða ykkur. 


Félagsmenn Verk Vest starfa hjá sveitarfélögum fá í samræmi við síðustu kjarasamninga greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð SGS.

Greitt var úr sjóðnum í fyrsta sinn 1. febrúar síðastliðinn og hafa nú verið greiddar rúmar 218 milljónir króna til tæplega 5.000 félagsmanna.

Félagsmönnum Verk Vest, sem starfa hjá sveitarfélögum, og ekki hafa fengið greitt úr sjóðnum er bent á að fylla út þetta form.

Greitt verður úr sjóðnum með reglubundum hætti næstu mánuði.


Hús 30 í Svignaskarð
Hús 30 í Svignaskarð

 

Í ár eins og undanfarin ár býðst félagsmönnum Verk Vest sem dvelja í Svignaskarði að kaupa veiðileyfi í neðsta veiðisvæði Norðurár. Veiðitímabilið frá 7. júní til 14. september.

Forgangur til þeirra félagsmanna sem hafa fengið úthlutað húsi í sumar er til 1. júní.

Opið verður fyrir almennar pantanir eftir það. Leigjendur á hverjum tíma geta kannað með laus leyfi í þjónustumiðstöð eða síma 893-1767.

Laus leyfi eru seld á staðnum og greitt fyrir jafnóðum.

Veiðileyfi eru seld í þjónustumiðstöð Svignaskarði, 893-1767 frá kl 8:00 til 16:00 og allar uppýsingar um laus leyfi veittar þar.

Til að panta þarf að:

  • Hringja í gsm. 893-1767 – opið 08:00 til 16:00
  • Panta - Greiða og prenta út kvittun
  • Sýna kvittun hjá umsjónarmanni við komu

Verð fyrir hálfan dag er kr. 6.000.- og fyrir heilan dag kr. 10.000.-


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.